149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Jú, það er engin ástæða til að draga dul á það hve mikilvægt er að þess jafnræðis sem ætlað er að sé í þessum samskiptum sé gætt. En auðvitað sjáum við, þegar á reynir, að staðan er ekki jöfn í neinu samhengi hlutanna. Þar dugar að benda á hið augljósa: Ein ástæða þess að Bretar eru í útgönguferli sínu er sú staða að þeim fannst sem lítið væri á þá hlustað. Þar erum við að tala um Bretland. Dettur einhverjum í hug að Ísland gæti haft þá stöðu í þessu samhengi hlutanna, í þessu ríkjasambandi, að nokkurn tímann yrði tekin ákvörðun, sem einhverri vigt nær, út frá því að hagsmunum Íslands verði tryggilega sinnt ef sú ákvörðun gengi gegn hagsmunum einhverra stórþjóðanna — þegar þjóðir eins og Bretar og Portúgalir, svo að dæmi séu nefnd, upplifa sig sem smáþjóðir í þessu samstarfi og telja að ekki sé hlustað á sjónarmið þeirra, með þekktum afleiðingum sem snúa að Brexit og þar fram eftir götunum?

Við höfum margt fram að færa, þekkingu á ýmsum sviðum. Mín skoðun hefur verið sú að við eigum að verja orku okkar í að koma sérfræðiþekkingu okkar á framfæri. Við erum í fremstu röð á ýmsum sviðum í heiminum, jafn ótrúlegt og það kann að vera fyrir jafn litla þjóð og fámenna og Íslendingar eru. Við eigum að vera stolt af því, (Forseti hringir.) en ég upplifi það oft þannig að við séum að reyna að smyrja okkur helst til þunnt í alþjóðasamstarfinu.