149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:58]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Nú háttar svo til að klukkan er að detta í níu og aðeins rétt rúmlega hálf klukkustund þangað til fyrstu fundir hefjast í þingnefndum. Það styttist því í að forseti muni slíta þessum fundi. Áður en forseti gerir það vill hann segja eftirfarandi:

Þrátt fyrir enn einn langan fund um þetta mál lítur ekki út fyrir að umræðunni ljúki á þessum fundi. Það eru forseta veruleg vonbrigði. Að vísu eru sex menn á mælendaskrá sem hafa fimm mínútna ræðutíma hver og ef þeir flyttu sínar ræður og ekki kæmu til andsvör og þeir bæðu ekki um orðið aftur mætti ljúka umræðunni á þeim tíma sem við höfum nú til ráðstöfunar en í ljósi reynslunnar og hvernig umræðan hefur þróast hyggst forseti ekki einu sinni reyna það því að væntanlega munu hv. þingmenn biðja jafnharðan um orðið og þeir hafa lokið ræðum sínum og sömuleiðis fara í full andsvör við flokksbræður sína.

Þingmenn Miðflokksins hafa nýtt ræðumöguleika sína hressilega í þessu máli. Þeir hafa líka notið góðvildar forseta sem hefur leyft full andsvör við fimm mínútna ræðum sem leiðir til þess að andsvörin verða þrisvar til fjórum sinnum lengri en ræðan sem andsvör eru veitt við.

Þessi fundur hefur nú staðið í rúma 17 klukkutíma. Umræðan í heild hefur staðið í yfir 70 klukkustundir og þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í yfir 60 klukkustundir. Þannig hefur til að mynda hv. 8. þm. Norðvest. flutt 23 ræður, gert 291 athugasemd og hafa ræður hans staðið í 146 mínútur og athugasemdir hans í 547 mínútur.

Þetta eru orðnar langar umræður. Svo er komið að ekkert annað hefur komist að á dagskrá Alþingis í rúma viku. Er þó af nógu að taka, samanber dagskrá þessa fundar þar sem 18 önnur mál bíða umfjöllunar.

Skyldur forseta lúta að mörgu, þar á meðal því að gæta réttar þingmanna, að á honum sé ekki brotið á neinn hátt. Það er þeim sem hér er á forsetastóli annt um, að réttur þingmanna sé virtur, en réttindum fylgir líka ábyrgð og forsetinn ber fleiri skyldur, þar á meðal þá skyldu, eins og það var a.m.k. orðað hér á árum áður, að leiða í ljós þingviljann, að gera allt sem mögulegt væri til þess að þingið gæti látið vilja sinn í ljós í málum sem væru tilbúin til þess.

Frelsið er mikilvægt, eins og réttur þingmanna, en það hefur líka verið talið að frelsi eins mætti ekki verða á kostnað annars. Sú hætta vex nú hratt vegna aðstæðna hér í þinginu að það verði á kostnað réttinda annarra þingmanna til þess að tjá sig um önnur þingmál hversu langan tíma þessi umræða hefur tekið. Nægir þar að vísa til þess mikla fjölda þingmála sem bíður afgreiðslu og reikna má með að fjölmargir þingmenn vilji gjarnan fá tækifæri til að tjá sig með eðlilegum hætti um.

Hættan er sú að þegar reynt er að ljúka þingstörfum með takmarkaðan tíma fram undan, og jafnvel þótt bætt yrði við dögum, að það verði, án þess að það sé þó ætlunin, til þess að ganga á rétt þingmanna til að tjá sig og ræða mörg mikilvæg mál sem hér bíða. Það er auðvitað ekki gott. Verði tímaþröng einnig til þess að fjölmörg mál sem eru tilbúin til afgreiðslu nái ekki afgreiðslu á þessu þingi hlýst af því mikið tjón og mikil vinna sem menn hafa lagt á sig í nefndum, t.d. í vetur, fer þá forgörðum.

Forseti vill því hvetja forystumenn Miðflokksins og þingmenn Miðflokksins alla til að hugleiða vel framhaldið. Forseti er alltaf tilbúinn til samtala, samanber þau samtöl við forystumenn Miðflokksins sem forseti hafði frumkvæði að í gær. En forseti ítrekar þá hvatningu sína til þingmanna Miðflokksins hvort þeir séu ekki tilbúnir að hugleiða nú milli funda hvort þeir geti ekki farið að takmarka ræðuhöld sín eða dregið þannig úr þeim að ljúka megi þessari umræðu, ganga til atkvæða um málið og ljúka því samkvæmt leikreglum lýðræðisins og þingræðisins sem hér gilda, að meirihlutaviljinn ráði.

„Þannig týnist tíminn“ segir í þekktum dægurlagatexta. Gott ef þar er ekki á ferðinni það dægurlag sem hefur verið valið vinsælast allra dægurlaga. Ég verð að segja að mér finnst nú tíminn vera farinn að týnast dálítið hjá okkur hér á Alþingi.

Að lokum vil ég aftur nota tækifærið til að þakka starfsfólki Alþingis sem hefur orðið að leggja gríðarlega mikið á sig til þess að þetta umfangsmikla fundahald gæti farið fram.