149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek heils hugar undir þetta með sáttina, sem hv. þingmaður nefndi svo réttilega. Hún er grundvöllurinn að því að þetta mál — sem er umdeilt, ekki síst í ljósi þess að forsaga þess, orkupakki eitt og orkupakki tvö, hafði veruleg áhrif á hag almennings.

Það er ekki síst þess vegna sem stjórnvöld verða að koma fram og leita sátta við þingið, þjóðina og þá sem hlut eiga að máli, fyrirtækin í landinu. Orkupakkar eitt og tvö voru markaðsvæðing hér innan lands en nú á að fara út fyrir landsteinana og fara inn á þetta stóra svæði. Það er alveg ljóst að orkupakki þrjú, sem felur í sér þessa sameiginlegu markaðsvæðingu, mun alveg örugglega hafa meiri og stærri áhrif en orkupakki eitt og tvö.

Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann nefnir sérstaklega verkalýðshreyfinguna. Ríkisstjórnin hlýtur að taka alvarlega og á að taka alvarlega umsagnir eins og frá Alþýðusambandi Íslands, VR og fleiri verkalýðsfélögum. Annað væri bara glapræði af hálfu ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess að nú eru komnar ábendingar um að svo gæti farið að lífskjarasamningnum yrði sagt upp. Ekki vill ríkisstjórnin sjá það gerast.

Þannig að ég tek undir þetta með hv. þingmanni. Það verður að ríkja sátt um svona stórt mál. Þetta er mál sem varðar alla þjóðina, framtíð okkar sem þjóðar, auðlind þjóðarinnar, búsetuskilyrði í landinu og lífsgæði.