149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég rakti áðan að öll óvissa í þessum efnum er mjög slæm. Stjórnvöld eiga aldrei að haga sinni lagasetningu og sínum stjórnvaldsaðgerðum þannig að það skapist óvissa í kringum þau. Það getur reynst aðilum máls mjög erfitt og kostnaðarsamt.

Það gerðist í frystiskyldumálinu. Við innleiddum eins og komið hefur fram matvælalöggjöf Evrópusambandsins 2009. Það er rétt líka að nefna að það stóð aldrei til í upphafi EES-samningsins að landbúnaðarmál væru þar inni en síðan gerist það. Það er svo margt í þessum samningi sem hefur breyst í tímans rás og það er alveg sérstakt umræðuefni. Við sjáum að nú eru orkumálin komin þarna inn. Það er eitthvað sem ekki var lagt af stað með í upphafi. Þetta hefur fyrrverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson rætt sérstaklega um og nefnir í sinni umsögn um þingsályktunartillöguna sem við ræðum hér að hafi aldrei verið lagt upp með. Hann er einn af okkar helstu sérfræðingum í EES-samningnum. Hann kom að gerð hans og þekkir hina ýmsu þætti hans og hvaða sjónarmið lágu að baki hinum ýmsu atriðum. Ég held því að þarna sé óvissa sem getur reynst okkur afar dýr (Forseti hringir.) og á ekki að vera til staðar.