149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:25]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég náði ekki að klára í fyrra andsvari mínu en ég þakka hv. þingmanni svarið. Svo ég klári þetta þá langar mig, með leyfi forseta, að lesa áfram úr þessari tilteknu þingsályktunartillögu:

„Samkvæmt ákvæðinu“ — þ.e. 21. gr. stjórnarskrárinnar — „er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.

Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009“ — sem ég mun, herra forseti, fara dýpra í í næstu ræðum mínum — „um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.“

En komi til grunnvirki yfir landamæri þá hafa þau þýðingu, herra forseti. Þá hafa þau nefnilega þýðingu. Og sé gerðin innleidd á hefðbundinn hátt tekur hún lagalegt gildi og skuldbindur okkur að þjóðarétti. Í þessu felst vafinn sem fræðimenn hafa lýst.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það er að verða svolítið (Forseti hringir.) þreytt að fá ekki almennileg svör og skýringar við því hvað menn meini með þessum lagalegu fyrirvörum — sem verða að innihalda dagsetningar, herra forseti.