149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og andsvarið. Ég verð að segja hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé það til hróss að hann hefur, einn af örfáum stjórnarþingmönnum og þeim sem eru fylgjandi þessum orkupakka þrjú, fylgst með umræðu í þingsal. Hann má eiga það. Þess vegna hefði verið ákaflega ánægjulegt ef hann hefði tekið þátt í umræðunni með okkur og svarað þeim spurningum sem við höfum varpað hér fram og erum að reyna að greina sjálfir okkar á milli, hvers vegna Vinstri grænir hafa skipt svona um skoðun í þessu máli. Það er annað sem ég hefði svo sannarlega viljað fá að heyra um frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé og það er umhverfislegi þátturinn í þessu máli.

Nú hafa Vinstri grænir hafa gefið sig út fyrir að vera umhverfisflokkur, og þeir eru það. Má þá spyrja: Hvers vegna hafa þeir ekki áhyggjur af því að þetta mál muni greiða fyrir því að hér verða auknar virkjunarframkvæmdir? Hér er verið að greiða götu fyrir því að innan tiltölulega fárra ára verði seld orka héðan úr landi, þessi hreina orka sem við höfum. Það þýðir náttúrlega eitt, það verður aukinn áhugi á því að virkja. Við erum farin að sjá það nú þegar þannig að þetta er mjög mikilvægt atriði í mínum huga og einkennilegt að t.d. umhverfisráðherra skuli ekkert hafa komið inn í þessa umræðu. Það væri ágætt að fá sjónarmið hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar um hvort hún sé ekki hrópandi, (Forseti hringir.) þessi fjarvera umhverfisráðherra í þessari umræðu.