149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Já, ég held að þetta málefni hafi fengið allt of litla athygli í þessu stóra máli, þ.e. þau viðskiptalegu og hagfræðilegu áhrif sem innleiðing orkupakkans kemur til með að hafa fyrir efnahagslíf þjóðarinnar í framtíðinni. Málið er stórt vegna þess að það varðar framtíðina, varðar komandi kynslóðir. Með því að samþykkja þennan orkupakka erum við að segja að við ætlum að vera þátttakendur á þessu stóra markaðssvæði og nýta okkar orkuauðlindir í því sambandi.

Þetta er stór og mikil ákvörðun sem er verið að taka með þessari innleiðingu. Það er kannski rétt að afleiðingarnar verði ekki ljósar hér og nú eða við innleiðinguna sjálfa, heldur innan fárra ára. Þegar sæstrengstengingin er komin virkjar innleiðingin öll ákvæði þessa orkupakka og ACER, þá yfirþjóðlegu stofnun, sem stjórna mun orkuflæðinu, orkuverðinu o.s.frv.

Það er mjög mikilvægt í mínum huga að ræða þjóðhagsleg áhrif og afleiðingar.

Það er næsta víst að það sem er hagkvæmt fyrir Evrópusambandslönd í rafmagnsmálum er ekki hagkvæmt fyrir Ísland. Hagsmunirnir eru á öndverðum meiði. Þetta er bara allt annað fyrirkomulag, aðrar aðstæður en við búum við. Þessi markaðsvæðing fer ekki saman við hagsmuni okkar. Ég held að við séum búin að sýna rækilega fram á það í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um þetta mál.

Eftir samtenginguna, eftir að sæstrengurinn er kominn — og það verður að ræða það, það má ekki geyma það til seinni tíma, eins og stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir. Þeir segja bara: Þetta hefur engin áhrif. En ef sú staða kæmi upp að beiðnir kæmu um sæstreng er það Alþingi sem ákveður það og þá tökum við upp þennan stjórnsýslulega fyrirvara o.s.frv. Það er ekki hægt að leggja þetta mál þannig upp. Það verður að horfa á heildarmyndina. Það er það sem skiptir öllu í þessu, að horfa á heildarmyndina. Hún er sú að við tengjumst sameiginlegum, stórum 500 milljóna manna markaði.

Eftir þessa tengingu mun íslenskt athafnalíf og íslensk heimili lenda í beinni samkeppni við heimili í Evrópusambandinu og atvinnulífið í Evrópusambandinu. Að sjálfsögðu er það ósanngjarnt vegna þess að hagræðið sem evrópskt athafnalíf nýtur vegna nálægðarinnar við markaðinn er miklu meira en við Íslendingar höfum aðgengi að. Nálægðin við markaðinn er þannig að hún veitir athafnalífinu í Evrópusambandinu miklu meira forskot en iðnfyrirtækjum hér á landi.

Svo höfum við náttúrlega húshitunina á Íslandi. Hún er miklu orkufrekari en í Evrópusambandinu og þess vegna er orkuþörf íslenskra heimila miklu meiri hér en heimila í Evrópusambandinu.(Forseti hringir.)

Ég sé að tíminn er búinn og ég næ ekki að klára, en ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.