149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég tel að það sé rétt, líka í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra mætti hingað í þingsal í gær og fjallaði um þetta mál með sínum hætti, og nauðsynlegt að draga saman stórar línur.

Það verður ekki sagt að hæstv. utanríkisráðherra eða stuðningsmenn þessa máls séu öfundsverðir af þeirri aðstöðu að hafa í höndunum lögfræðilega álitsgerð, mjög vandaða að allri gerð. Varðandi stjórnarskrárþáttinn er niðurstaðan sú að verulegur vafi er talinn leika á því að þessi innleiðing á orkupakka þrjú standist ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Niðurstaðan er tvítekin. Verulegur vafi. Orð af þessu tagi hafa mikla merkingu í skjölum af því tagi sem við erum að tala um, eins og lögfræðilegum álitsgerðum sem unnar eru fyrir ráðherra í náttúrlega stóru og viðkvæmu hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Alvarlegur vafi, herra forseti.

Í annan stað eru hæstv. utanríkisráðherra og stuðningsmenn þessa máls í þeirri stöðu að búið er að stafa ofan í þá í fyrrgreindri lögfræðilegri álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, að samþykki við þessari þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, sem felur í sér að reglugerð Evrópusambandsins nr. 713/2009 fær lagagildi á Íslandi, mun hafa þær afleiðingar að erlendar stofnanir muni fá a.m.k. óbein áhrif, eins og það er orðað, nákvæmlega orðrétt, á skipulag á ráðstöfun og á nýtingu orkuauðlinda íslensku þjóðarinnar. Þeir eru með þetta skjal í höndunum. Þeir eru með þessa niðurstöðu í höndunum.

Þessi niðurstaða er ítarlega rökstudd, eins og í vönduðu lögfræðilegu áliti. Hún er ítarlega rökstudd með tilvísun í einstök ákvæði reglugerðar nr. 713 þar sem mestu munar um greinar sjö, átta og níu. Bara til áréttingar og til minnis fyrir þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu: Reglugerð, eins og það heitir frá Evrópusambandinu, merkir lög, eins og við tölum um hlutina.

Ég verð að viðurkenna að mér þótti hæstv. utanríkisráðherra fremur laustengdur við þessar niðurstöður og ekki átta sig til hlítar á því að þetta væru hinar eiginlegu niðurstöður hinna lögfræðilegu ráðunauta sem hann kallaði sjálfur til og virtist eigna öðrum það í sínu máli, sagði að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu, þegar þeir sem vakið hafa athygli á þessu, eins og ég hef reyndar gert nokkrum sinnum, hafa ekkert gert annað en að vitna til hinnar lögfræðilegu ráðunauta ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Hæstv. utanríkisráðherra gat heldur ekki skýrt hvaða pólitískt umboð hann eða flokkur hans eða ríkisstjórnarflokkarnir hefðu til að taka ákvarðanir sem kunna að rekast á við stjórnarskrá og sem munu fela í sér afsal á íslenskum orkuauðlindum í þeim mæli sem lýst er í þessari lögfræðilegu álitsgerð til erlendra aðila. Hvar er hið pólitíska umboð fyrir því? Hver talaði fyrir þessum þriðja orkupakka fyrir síðustu kosningar? Enginn. Hvernig eru flokkssamþykktir þessara flokka sem standa að þessari ríkisstjórn? Þær eru aldeilis ekki í þessa átt, þvert á móti.

Eitt atriði í viðbót er rétt að nefna og það er að hæstv. utanríkisráðherra var spurður eftir þeirri grundvallarstefnubreytingu í utanríkismálum sem hann boðar með þessu. Stefnan hefur verið: Það er hægt að semja um aðgang að mörkuðum með gagnkvæmum hætti en það kemur ekki til greina að fyrir aðgang að markaði verði veittur aðgangur að auðlind, eins og svo rækilega er farið yfir í umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem liggur fyrir sem þingskjal í þessu máli.