149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

kínverskar fjárfestingar hér á landi.

[15:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þá er ljóst að frjálslynd öfl voru helstu sigurvegarar nýafstaðinna Evrópuþingskosninga og það er gleðiefni. Hins vegar má ekki gleyma því að á sama tíma náðu þjóðernispopúlistar góðum árangri, flokkar sem virðast á stundum frekar hafa það á dagskrá sinni að sundra Evrópu en að sameina og það á tímum þegar sótt er að álfunni okkar úr ýmsum áttum. Það er deginum ljósara að margir hafa áhuga á ítökum í Evrópu. Á síðustu 11 árum hefur kínversk fjárfesting aukist í löndum Evrópusambandsins úr 0,7 milljörðum evra í 30 milljarða evra. Þar af jókst hlutur kínverskra stjórnvalda í þessum fjárfestingum gríðarlega, fór t.d. úr 35% í 70% á milli áranna 2016 og 2017. Þessi miklu umsvif kínverskra stjórnvalda í Evrópu eru hluti af skýrri stefnu Kínverja, stefnu sem ber nafnið Belti og braut og miðar m.a. að því að auka ítök Kínverja í innviðum Evrópu, svo það sé bara sagt hreint út.

Nú eru íslensk stjórnvöld sögð íhuga boð Kínverja um gríðarháa peningagjöf, gjöf sem fæli í sér umfangsmikla innviðauppbyggingu á Íslandi, og ég spyr hæstv. forsætisráðherra frétta af þessum samskiptum. Það er vissulega svo samkvæmt fréttum að það er utanríkisráðuneytið sem er að skoða þetta tilboð, en málið er einfaldlega þannig vaxið að þótt hér væru þrír utanríkisráðherrar myndi ég engu að síður beina fyrirspurn minni til forsætisráðherra, mér finnst þetta mál vera þess eðlis. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Eru íslensk stjórnvöld í viðræðum við kollega sína í Kína um að fá frá þeim í formi gjafar allt það sem Ísland þarf til innviðauppbyggingar um landið vítt og breitt? Þetta hefur verið staðfest af hálfu utanríkisráðuneytisins og ég spyr: Í hvaða farvegi er málið og hvenær er þá ástæða til að upplýsa Alþingi frekar?