149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

kínverskar fjárfestingar hér á landi.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa spurningu. Nú er það svo að öllum er kunnugt um áhuga kínverskra stjórnvalda á því að fá sem flest ríki með í það sem þau kalla Belti og braut frumkvæði, ég er að reyna að þýða þetta á íslensku, belti og braut getum við kallað það. Megininntak þessa frumkvæðis er uppbygging og fjárfesting í innviðum og samgöngum í samstarfsríkjum Kínverja. Kínversk stjórnvöld hafa vissulega átt samtöl við velflest vestræn ríki um að taka þátt í þessu verkefni, belti og braut, þar sem áherslan hefur yfirleitt verið á einhvers konar fjárfestingar.

Hv. þingmaður nefnir það að okkur standi til boða einhvers konar gjöf. Ég vil ekki líta svo á þó að svo kunni að vera að Kínverjar hafi hug á fjárfestingu hér á landi. Sá áhugi er ekki nýr af nálinni og við þekkjum gömul dæmi þess efnis að kínverskir aðilar hafa viljað t.d. fjárfesta hér í landi og öðrum þáttum. Utanríkisráðuneytið hefur hins vegar haft þetta belti og braut framtak til skoðunar undanfarin misseri og hvað nákvæmlega felst í þeim tillögum sem kínversk stjórnvöld hafa verið að kynna vestrænum ríkjum, hvað það myndi þýða fyrir íslenska hagsmuni.

Við höfum auðvitað fríverslunarsamning við Kína og að mörgu leyti hafa samskipti ríkjanna verið að styrkjast á undanförnum árum hvað varðar rannsóknasamstarf, nýsköpunarsamstarf og annað slíkt. En það liggur hins vegar algerlega fyrir að það er ekkert á borðinu um að taka við neinum gjöfum frá kínverskum stjórnvöldum, bara svo það sé sagt skýrt. Hins vegar er það svo og þarf ekki að koma neinum á óvart að kínversk stjórnvöld hafa verið að leita hófanna með fjárfestingar. Það verða engar ákvarðanir teknar af hálfu íslenskra stjórnvalda án þess að það verði rætt á Alþingi. Þær liggja ekki á borðinu svo að ég sé fullkomlega heiðarleg með það við hv. þingmann.