149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég er búinn að lista hér upp 13 spurningar sem ég ætla ekki að spyrja þingmanninn út í að sinni í það minnsta. Þetta eru hins vegar spurningar sem ég mun reyna að fá svör við í ræðum í dag og í kvöld. Ég vakti athygli á því fyrir helgina, í síðustu viku, hvernig umfjöllun fjölmiðla um þetta mál hefur verið háttað, þ.e. hversu lítið hefur verið kafað ofan í alvarleika málsins og tengsl málsins í heild, í raun heildarmyndina. Ég er sammála hv. þingmanni að það er mikilvægt að gera þá kröfu, mér finnst í lagi að orða það þannig, að fjölmiðlar fjalli meira um innihald málsins en fjölda ræðumanna eða hve lengi menn tala og slíkt, það er aukaatriði í þessu öllu saman í raun þó að fjölmiðlarnir hafi að sjálfsögðu alltaf val. Innihaldið er aðalatriði málsins en ekki slíkar staðreyndir.

Innihaldið kallar m.a. á spurningu sem er kannski stóra spurningin: Er aukið valdframsal í orkupakka fjögur? Er það virkilega þannig að fjölmiðill sem fær 4.000 milljónir frá skattgreiðendum hefur ekki færi á að kafa ofan í slíka greiningu, mögulega kaupa sér lögfræðilega aðstoð, rannsaka hvað það þýðir ef orkupakki fjögur verður innleiddur ofan á orkupakka þrjú varðandi stjórnarskrána okkar? Þetta er ein af mörgum spurningum sem hægt er að velta upp. Og við hljótum að gera meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra fjölmiðla miðað við þá forgjöf sem sú stofnun fær.

Auðvitað er það ekki þannig að við stýrum fjölmiðlum, við gerum það ekki héðan, en við eigum fullan rétt á að segja okkar skoðanir á umfjöllun eða hvernig málum er háttað. Vonandi er hægt að skapa fjölmiðlum, þá einkareknum fjölmiðlum sérstaklega, þá stöðu að þeir geti haft mannafla, fé og orku í að taka svona stór mál og kryfja þau til mergjar. Við sjáum það gerast hjá fjölmiðlum víða erlendis að þar hafa menn afl til þess.