149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það velkist enginn í vafa um það, er ég hræddur um, að að öðru jöfnu muni hagsmunir Evrópusambandsins og orkustefna þess alltaf trompa þau sjónarmið sem fram kunna að koma frá smámarkaði eins og á Íslandi.

Það er undarlegt að sjá svona merkilegt atriði og risastórt innlegg í málið eins og að ráðherraráð Evrópuþingsins klári orkupakkann, allar reglugerðir orkupakkamálsins frá sér, vera hanterað með þeim hætti að engu skipti í samhengi við þá umræðu sem á sér stað hér um þriðja orkupakkann.

Ég hef haldið því fram að það sé margt sem bendi til þess að þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna þyki málið heldur óþægilegt, enda sést það á viðveru þeirra hér á svæðinu og þátttöku í umræðunum. Menn hafi bitið það í sig að illu sé best af lokið og nú skuli þeir setja hausinn undir sig og keyra málið í gegn og komast í atkvæðagreiðslu og vona að ekki þurfi að hugsa um það aftur, sem eru litlar líkur á.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þetta algera sinnuleysi gagnvart nýjum upplýsingum sé algengt í jafn stórum og umfangsmiklum málum og hér er um að ræða. Hvað væri helst til ráða til að sannfæra fyrirsvarsmenn stjórnarflokkanna um að það væri (Forseti hringir.) þess virði að taka einn snúning á því sem ráðherraráðið á Evrópuþinginu var að senda frá sér?