149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einmitt lykilatriðið, að nálgast EES-samninginn með þeim hætti sem menn fóru inn í hann á sínum tíma, að við höfum stöðu til jafns við gagnaðila okkar, þótt við höfum á mörgum sviðum á þessum 25 árum annars vegar gefið meira eftir en ég hefði talið skynsamlegt og hins vegar innleitt gerðir með miklu ítarlegri og meira íþyngjandi hætti en Evrópusambandsþjóðirnar gera sjálfar. Það hefur stundum verið talað um að menn hér heima séu kaþólskari en páfinn þegar kemur að innleiðingu Evrópuregluverksins. Það er segin saga að ef við förum að nálgast samninginn út frá ótta, erum lítil í okkur og hrædd um það að ef við styggjum einhvern af samstarfsaðilum okkar, hvort sem það er einhver hinna EES-þjóðanna eða þá Evrópusambandið, geti allt orðið voðalega vont og mjög reiðir menn og konur gert okkur mikinn óleik, þá vatnar mjög hratt undan samningnum.

Það er kannski að hluta til það sem ég hef komið inn á í ræðu fyrr í þessari umræðu, að ef orkupakkinn verður innleiddur með þeim hætti eins og nú liggur fyrir og eitthvað af áhyggjum okkar Miðflokksmanna og -kvenna raungerist verði fyrst þrýstingur á EES-samninginn því að að öllu þessu klabbi innleiddu verður mögulega enginn annar kostur í stöðunni en sá að segja samningnum upp. Í þá vegferð (Forseti hringir.) vilja fáir fara að ég tel.