149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því að óskoðuðu máli hvort hér er um að ræða sama dóminn. Það breytir því ekki að það er, að ég held, óumdeilt, sama hvort hlustað er á núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að menn töldu að fyrirvarar væru þarna sem tryggðu að mönnum væri heimilt að loka á innflutning á ófrosnu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og fleiri afurðum af sama meiði. Ég skal bara koma í ræðu síðar í kvöld þar sem ég fer í smáatriðum yfir þetta. Ég er ekki með þessi gögn hjá mér hvað smáatriðin varðar en það er alla vega þannig að þeir fyrirvarar sem menn töldu sig hafa þarna voru að engu hafðir. Ef menn töldu sig enga fyrirvara hafa hefði væntanlega ekki heldur verið lagt í þá vegferð sem endaði með þessu dómsmáli, hvort sem það er það sem hv. þingmaður vísaði í rétt áðan eða dómur kveðinn upp í annan tíma, sem ég, eins og ég segi, yrði bara að fá tækifæri til að skoða hér á eftir.