149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að vitna aftur í staflið d í 3. tölulið bréfsins sem við vorum að ræða frá 10. apríl. Þar stendur, með leyfi forseta: „Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.“

Mig langar að velta upp þeirri heimsmynd sem þarf að vera sönn til þess að afleiðingarnar verði í þá veru sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af. Það þyrfti að vera þannig að erlendir aðilar, ESA og EES-aðilar, myndu ekki gera neinar athugasemdir við það að við gerum þá fyrirvara sem við munum gera. Sömuleiðis þyrfti orkumálastjóri ESB að leggja sig fram við það að fullyrða eitthvað í sínu eigin nafni, en erlendis þykir sumum vænt um orðstír sinn. Skilningur ACER væri sá að þetta kæmi ekki til framkvæmda fyrr en Ísland ákvæði að leggja sæstreng, en myndi síðan svíkja það bara til að vera vond við okkur. Hvaða hagsmunum myndi það hugsanlega þjóna? Hver myndi græða pening á því? Hver ætti auðveldara með að leggja sæstreng þannig? Það er það sem ég skil ekki við tilgátuna, virðulegi forseti.

Það er endalaust hægt að velta því upp hvað gerist ef einhver myndi kæra þetta eða hvað ef einhver myndi kæra hitt. Það getur hver sem er kært hvern sem er fyrir hvað sem er. Ég geti kært næsta hv. þingmann fyrir eitthvað, einhverja grein af handahófi í almennum lögum ef mér sýndist. Það myndi ekki þýða að það næði neitt. Gögn málsins sannfæra mig ekki á neinn hátt um að það myndi ná einhverju að kæra höfnun á lagningu sæstrengs samkvæmt þriðja orkupakkanum eða samkvæmt þeim ákvörðun sem Ísland hefur tekið eða þeim skuldbindingum sem Ísland er hér að axla.