149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þessari spurningu sé að verulegu leyti svarað í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar þegar þeir fjalla um það að að samþykktum þessum orkupakka fái erlendar stofnanir — þeir eiga við ESA og ACER, ESA er Eftirlitsstofnun Evrópu og ACER er orkustofnun Evrópu — a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Ég held að spurning hv. þingmanns sé mjög góð. Ég tel að þessi niðurstaða tvímenninganna sé mjög ítarlega rökstudd með vísan til tilgreindra ákvæða í reglugerð nr. 713, sem oft er nefnd og þá ekki síst 8. gr. þeirrar reglugerðar.

Hv. þingmaður nefndi ýmsa þætti sem eru íslenskum atvinnurekstri tiltölulega óhagfelldir. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Kostnaður vegna flutninga að og frá landinu er meiri en gerist og gengur víða annars staðar. Við erum með tiltölulega hátt launastig í samanburði við ýmsar aðrar þjóðir. Við erum með tiltölulega hærri fjármagnskostnað en margar aðrar þjóðir líka af ýmsum ástæðum sem kannski þarf ekkert að fara út í hér. Við erum með að sumu leyti sveiflukennt efnahagslíf sem gerir atvinnurekstur, áætlanagerð og annað af því tagi erfiðara en í samkeppnislöndunum. Það yrði því ekki til að bæta samkeppnisstöðu þessara atvinnufyrirtækja að innleiða þennan orkupakka, ég held að það verði nú að segja það bara í einni setningu.