149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem við höfum verið að reyna að vara við. Ég hjó einmitt eftir því að fyrr í dag sagði hæstv. forsætisráðherra, og þetta varð að fyrirsögn líklega á ruv.is, eitthvað þannig: Ég vona að hingað verði ekki lagður sæstrengur. Ég tek heils hugar undir það og vona það með hæstv. ráðherra, en það er ekki nóg. Við þurfum að ganga þannig frá hnútum að þetta verði ekki gert vegna þess að við kærum okkur ekki um að orkan verði soguð héðan til Evrópu, orka sem við getum notað hér heima til að uppfylla þau skilyrði og þær væntingar sem hafa verið m.a. ræddar hér á Alþingi síðustu tíu dagana eða svo, þ.e um stóraukna grænmetisframleiðslu, orkuskipti o.s.frv. Hvernig ætlum við að uppfylla allt það sem við viljum gera innan lands, skapa bæði verðmæti og vinnu, ef við ætlum að selja orkuna úr landi? Það gengur ekki upp.

Þessar fréttir frá því í morgun komu manni að vísu í opna skjöldu. En auðvitað gat maður ætlað að þær væru á leiðinni vegna þess að við höfum bent á það í undanfarandi ræðum að fjársterkir erlendir aðilar vilja reisa hér vindorkuver af stærri gerðinni. Það er búið að úthluta rannsóknarleyfum fyrir mjög mörgum smávirkjunum sem eru 9,9 MW og þurfa þess vegna ekki að fara í umhverfismat. Auðvitað gat maður sagt sér það og við erum reyndar búin að leiða líkur að því undanfarna daga og svo kemur þetta upp núna eins og margt annað nýtt sem hefur komið fram meðan við höfum verið að ræða þessa tillögu. Þessi orka sem er framleidd með vindorkuverum og smávirkjunum er ekki jafn hagkvæm eða á jafn hagkvæmu verði og sú orka sem við erum að framleiða sjálf og við gátum þess vegna sagt okkur það (Forseti hringir.) að það ætti að selja hana einhvers staðar annars staðar þar sem verðið passaði.