149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar þessu tengt að lesa smákafla á bls. 4 í umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 1. gr. EES-samningsins kemur fram að markmið hans sé að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði […]

Alþingi Íslendinga, sem löggjafarvald aðildarríkis EES-samningsins, er ekki vettvangur til að gera breytingar, setja undanþágur eða lagalega fyrirvara varðandi innleiðingu ESB-gerðanna sem ekki koma fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Undanþágur eru veittar ríkjum varðandi gildi gerðanna eingöngu í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þær verða ekki gerðar með lagalegum fyrirvörum í landsrétti ríkjanna. Það er nefndin sem kveður á um það í ákvörðun sinni ef ESB-gerð á ekki að hafa gildi gagnvart einstökum ríkjum.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta eru akkúrat rökin sem við höfum hamrað á aftur og aftur, þ.e. ef eigi að gera lagalegan fyrirvara við innleiðingu þriðja orkupakkans þurfi það að gerast með því að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem EES-ríkin og Ísland setjast niður saman, þetta er sáttaferli, og komast að sameiginlegri niðurstöðu um lagalega fyrirvara sem koma frá EES-samstarfinu. Þeir koma ekki héðan einhliða, ég tala nú ekki um ef þeir finnast ekki eins og fyrirvararnir sem við erum búin að leita í nokkra daga. Það gengur ekki að leika sér með þessum hætti með fjöregg þjóðarinnar. Það er bara ekki hægt.