149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið frá hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni. Fyrst er það að segja að vissulega þroskast málið hratt núna þessa dagana meðan umræðan er í gangi. Í því ljósi er sérstaklega athyglivert hversu lítinn gaum stuðningsmenn orkupakkans gefa umræðunni, taka hér um bil engan þátt í henni og virðast ýta öllum nýjum upplýsingum, röksemdum og sjónarmiðum til hliðar.

Varðandi spurninguna sem sneri að því hvar þessi sjónarmið hæstv. ráðherra hefðu komið fram er það þannig að 15. nóvember 2018 kom hæstv. utanríkisráðherra í viðtal hjá Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Fresta orkupakkanum til vors“ sem er þá vorþingið sem við störfum á núna. Þetta er sem sagt frá haustþinginu 2018 og hæstv. utanríkisráðherra talar um að fresta orkupakkanum til vors.

Daginn eftir kemur hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, í viðtal í sama blaði, Morgunblaðinu, undir yfirskriftinni „Útilokar ekki frekari frestun orkupakka“. Þar er haft eftir henni, með leyfi forseta:

„Ekki er útilokað að framlagning frumvarps um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins frestist lengur en til vorþings.“

Það getur þá ekki verið nema a.m.k. til haustþings 2019 og mögulega lengur því að áfram heldur í viðtalinu innan gæsalappa þar sem haft er eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf sagt að okkur liggur ekkert á og við viljum skoða þetta vandlega.“

Áfram heldur ráðherrann, með leyfi forseta:

„Það er aldrei hægt að útiloka neitt um þingmál sem eru í vinnslu.“

En kjarnaatriðið er:

„Ekki er útilokað að framlagning frumvarps um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins frestist lengur en til vorþings.“ (Forseti hringir.)

Það er alveg ljóst að annar ráðherrann sem fjallar um þetta mál er þeirrar skoðunar að ekkert liggi á.