149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef ekki séð nema frétt um samþykkt og afgreiðslu ráðherraráðsins á fjórða orkupakkanum. Það var eitt atriði sérstaklega sem ég veitti athygli. Þar var talað um að eitt af markmiðum fjórða pakkans væri að útvíkka og efla valdsvið ACER. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað skoðað eða kynnt sér þetta tiltekna efnisatriði. Þetta er auðvitað ekki komið til okkar í neinum smáatriðum, eða ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi ítarlegar upplýsingar um þetta, en ég spyr hvort eitthvað hafi flotið upp í tengslum við þetta sem væri hönd á festandi í tengslum við þær áhyggjur sem við höfum einmitt af mögulegu valdsviði ACER innan lands undir regluverki þriðja orkupakkans. Þetta er eitt af þeim atriðum sem er algerlega nauðsynlegt að fá botn í og það er ábyrgðarhluti ef þeir sem styðja við þessa innleiðingu með þeim hætti sem nú er lagt upp með vilja ekki skoða þetta.

Ég ætla að láta þetta duga í fyrra andsvari. Ég ætla að koma að öðru efnisatriði í seinna andsvari, en í þeim fréttum sem þegar hafa borist um efnisatriði fjórða orkupakkans var þetta það sem stakk mig mest fyrst. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað náð að kynna sér þetta og hvaða áhrif gætu verið þarna í pípunum gagnvart útvíkkuðu valdsviði ACER.