149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ef stjórnvöld telja sig ekki geta nýtt 102. gr. samningsins sem er hluti af samningnum — þetta er engin neðanmálsgrein í viðauka eða eitthvað slíkt, engin skýring, þetta er grein í samningnum sem gerir ráð fyrir að ákveðið ferli fari af stað ef menn ná ekki niðurstöðu — ef menn treysta sér ekki til að nýta svona grein þegar mikið er undir, eins og t.d. núna þegar við ræðum framtíðarorkumálastefnu þjóðarinnar, til hvers er hún þá? Ég velti fyrir mér til hvers menn séu með stjórnskipulegan fyrirvara ef þetta á bara að koma á færibandi og menn reyni að semja um aðlaganir eða undanþágur sem ekki fást svo á því. Þýðir þá nokkuð að vera að setja stjórnskipulegan fyrirvara ef hann verður ekki nýttur þegar fullreynt er að menn komist að ásættanlegri niðurstöðu?

Það er líka áhugavert að heyra hv. þingmann fara yfir þá greinargerð sem hann fór yfir í ræðu sinni, ekki síst út frá því að í áðurnefndu lögfræðiáliti Stefáns Más og Friðriks Árna kemur einmitt fram í neðanmálsgrein eða skýringu, 60 eða 62, ég man ekki númerið á þessu, að íslenska ríkið kunni að eiga á hættu að lenda í málaferlum og mögulega verði erfitt að verjast þar gegn einkaaðilum og lögaðilum. Það virðist einhvern veginn hafa gleymst. Telur ekki hv. þingmaður að gaumgæfa þurfi það betur miðað við þá umsögn sem hann las upp áðan?