149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil leyfa mér að skilja ræðu hans á þann veg að það sé óforsvaranlegt, óverjandi, að ætla sér að samþykkja þetta stóra mál með þeim þungu þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við tökumst á herðar með því að samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, án þess að veigamikil mál eins og hér blasa við séu fullrannsökuð.

Ekki hefur verið sýnt fram á það, herra forseti, að það sé neitt í málinu sem leggi á okkur einhverjar skyldur vegna þátttöku okkar í samstarfinu að afgreiða það núna í maí. Það er ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir því, a.m.k. hefur ekki verið sýnt fram á neitt, að þessu máli yrði einfaldlega frestað fram á haustið þannig að ráðrúm gæfist til þess að skoða það með fullnægjandi hætti. Það er óviðunandi að ætla sér að afgreiða mál sem hefur svo víðtækar afleiðingar, snertir svo víðtæka hagsmuni þjóðarinnar og um leið einstaklinga og lögaðila, á þennan hátt.

Það mætti halda áfram með þennan lista yfir mál sem eru órannsökuð. Til dæmis eru þingmenn sem hafa haldið því fram að það megi vænta lækkunar á raforkuverði. Þetta hafa þeir verið að skrifa í greinum í blöðum, þvert á það sem með hliðsjón af reynslu og almennum sjónarmiðum má gera ráð fyrir að verði raunin. Það væri þá kannski lágmark að aflað væri hagfræðilegar greinargerðar um þennan þátt málsins en hann snertir hvert heimili í landinu og hefur þýðingarmiklar afleiðingar fyrir atvinnufyrirtæki í mörgum greinum.