149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það sýnist ekki annað blasa við en að það sé mikil tilhneiging til að miðstjórnarvald á þessu sviði verði mikið í þeim löndum sem hafa gengist undir þennan orkupakka. Það er ekki annað að sjá.

Annað atriði í þessu sambandi er, eins og hv. þingmaður vék að, að það er tilefni sérstakra athugasemda í greinargerð Friðriks Árna og Stefáns Más hversu veik staða Eftirlitsstofnunar Evrópu er gagnvart orkustofnun Evrópu, ACER. Það er ACER sem semur drög að ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Afar sérkennilegt. Þessir höfundar ræða þetta í samhengi við það sem menn þekkja sem tveggja stoða kerfi, þ.e. að við eigum ekki að eiga neina hagsmuni undir ákvörðunum stofnana sem við eigum ekki aðild að og eigum ekki fulltrúa hjá. Við eigum aðild og fulltrúa að ESA en ekki að yfirstofnuninni ACER. Þar eigum við ekki nema áheyrnarfulltrúa.

Íslendingar hafa allan þann tíma sem þetta samstarf hefur staðið og á meðan það var í undirbúningi lagt á það mikla áherslu að tveggja stoða kerfið væri í gildi. Það er ekki hægt að fallast á það að hér sé tekið við fyrirmælum frá erlendum stofnunum sem við eigum ekki aðild að. Þess vegna er það mjög mikið umhugsunarefni ef það á að fara í veigamiklum atriðum að víkja frá hinni tveggja stoða lausn hvað þetta varðar.