149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr stórra spurninga um fjórða orkupakkann og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá höfum við hér í þinginu ekki fengið nokkra einustu kynningu á honum þó að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé búin að afgreiða hann fyrir fáeinum dögum. Það breytir ekki því að löngu áður en það gerðist var búið að kynna þennan fjórða orkupakka fyrir fólki á Íslandi, fyrir hagsmunasamtökum, fyrir fleiri aðilum úti í bæ. En ríkisstjórnin virðist hafa viljað líta algjörlega fram hjá tilvist þessa fjórða orkupakka í umræðu um þann þriðja. Það er að mínu mati sérkennilegt í ljósi þess rökstuðnings sem fulltrúar stjórnarflokkanna hafa haft fram að færa um mikilvægi þess að innleiða þriðja pakkann, sem hefur einmitt að miklu leyti gengið út á það að hann væri nauðsynlegt og eðlilegt framhald af fyrstu og annarri orkutilskipuninni. Við yrðum að innleiða pakka númer þrjú af því að við hefðum innleitt eitt og tvö og eitt og annað gerst í millitíðinni. Í ljósi þeirra raka skýtur óneitanlega skökku við, þegar menn tala fyrir þriðja pakkanum og sá fjórði liggur fyrir, að menn vilji ekki líta til þess hvað í honum felst. Vonandi getum við í umræðunni komist nær því að átta okkur á hvað fylgir með fjórða pakkanum.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur mikla reynslu af samskiptum við þetta batterí, Evrópusambandið, er: Er ekki óhætt að ætla, miðað við til að mynda það sem hann rakti í ræðu sinni áðan, að þetta sé allt liður í fyrirsjáanlegri vegferð Evrópusambandsins til að auka miðstýringarvaldið á sviði orkumála og taka þá eitt skref í einu, í (Forseti hringir.) sumum tilvikum fleiri, allt með það að markmiði?