149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það þarf kannski lengri tíma til að útskýra svona viðamiklar spurningar. Samkvæmt áliti þeirra félaga þá hefur innleiðing þriðja orkupakkans í för með sér réttaróvissu hér á landi sem ekki verður við unað, eins og þeir orða það sjálfir. Síðan ræða þeir um mögulega bótaskyldu vegna þess að það séu miklar líkur á að hluti af þessu regluverki, 8. gr. sérstaklega, gangi í berhögg við stjórnarskrá. Það getur skapað íslenska ríkinu bótaskyldu. Þau tilvik eru þess eðlis að það er kannski ekki auðvelt að nefna þau en þau geta verið alls kyns.

Þeir benda á möguleg lausn, að þetta sé innleitt með lagalegum fyrirvara, regluverkið gildi raunverulega ekki en samt er það innleitt. Það er grundvallaratriði, frú forseti, að lagalegi fyrirvarinn sem þarna er nefndur af hálfu lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar er ekkert skilgreindur, hann er ekkert útfærðar. Og hvað gerir ríkisstjórnin? Hún fer upp í Skuggahverfi, semur reglugerð. Eftir hvaða leiðsögn? Er þessa leiðsögn að finna í álitinu? Ég hef ekki séð það. Ég yrði þakklátur ef einhver gæti bent mér á það. Er leiðsögn að finna í álitinu um hvernig eigi að gera þetta? Nei, ekki svo ég viti. Hvað gerir ríkisstjórnin? Hún gerir þetta, ef ég skil þetta rétt, með reglugerð sem samin er upp í Skuggahverfi á göngum eins ráðuneytis og bíður undirritunar. Eins og það ryðji út regluverkum Evrópusambandsins? Það er fráleitt.