149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu ræðu og hlakka til að heyra framhald hennar. Hv. þingmaður talar um framvinduna, þ.e. hvert þetta leiði okkur, hvernig orkumarkaðurinn í þessu tilfelli muni líta út eftir innleiðingu fjórða orkupakkans o.s.frv. Við vitum svo sem ekkert nákvæmlega hvar þróun orkumarkaðarins mun enda. Það er enginn búinn að segja við okkur að þeir verði sex og svo ekki meir, þessir orkupakkar, eða hversu margir þeir verði. Ég geri líka ráð fyrir að þegar Evrópusambandið endurskoði orkustefnu sína eftir einhver ár kunni einhverjar áherslur og einhverjir þættir að breytast.

Ferlinu sem við erum búin að vera í síðan við tókum upp fyrstu orkutilskipunina og síðan aðra er hvergi lokið. Þess vegna er mjög mikilvægt að leggja áherslu á að reyna að sjá heildarmyndina eins mikið og við getum.

Í ljósi þess að þetta er ein samfella og að við þurfum að geta áttað okkur á hvernig hún lítur út eins mikið og hægt er má skoða þær tilkynningar sem eru birtar á vefsíðu Evrópusambandsins um fjórða orkupakkann. Þar kemur m.a. fram að til þess að ná markmiðum breytinga fjórða orkupakkans sé búið að uppfæra reglugerð 72/2009 og reglugerð 714/2009, þ.e. setja inn nýja reglugerð um áhættuviðbúnað og auka og breyta hlutverki ACER.

Þarna erum við að tala um fjórða orkupakkann en við erum ekki búin að innleiða þetta nú þegar. Við erum að fjalla um þessar gerðir núna varðandi þann þriðja.