149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í orkuverðsumræðuna og hvort hann hafi haft eitthvert tækifæri til að skoða það sjálfur eða séð einhverja umfjöllun um það hvort eitthvað í fjórða orkupakkanum, sem er kominn fram, geti mögulega leitt til enn meiri hækkunar á raforkuverði en gera má ráð fyrir að verði af orkupakka þrjú. Það eru ákveðnar skyldur sem leggjast á ríkið varðandi innviði þegar einkaaðili vill framleiða rafmagn, koma því inn á kerfið og flytja. Þess vegna er eðlilegt að velta fyrir sér hvort framhald á slíku gæti mögulega orðið með orkupakka fjögur. Nú veit ég ekki hvort þingmaðurinn hefur náð að kynna sér þetta en mig langar að spyrja hann að því.

Síðan er allt í lagi að læra af sögunni og öll reynum við að læra af því sem hefur á daga okkar drifið. Því er mikilvægt að spyrja hver þróunin hefur verið varðandi orkuverð á markaði, ekki bara á Íslandi heldur líka í Evrópu. Fyrir ekki svo löngu ákvað m.a. íslenska orkufyrirtækið Landsvirkjun að breyta gjaldskrá sinni til samræmis við, ef ég man rétt, raforkuverð í Evrópu og við það hækkuðu öll viðmið og taxtar, samningarnir tóku mið af þessum nýju plönum. Eru líkur á að áframhald verði á raforkuverðshækkunum gangi þetta allt eftir?