149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt af því sem við höfum séð að rætt er um í fjórða orkupakkanum er orkunýtni bygginga og það er nokkuð sem við munum þurfa að fara yfir, hvaða breytingar verða á hugmyndum varðandi orkunýtni bygginga þar. Í umsögn Samtaka iðnaðarins er vakin athygli á þessu sérstaklega. Það er freistandi að reyna að fá einhver svör við því, ég held að það væri ágætt. Um hvað er verið að ræða? Mun byggingar- eða hönnunarkostnaður eða hvort tveggja hækka? Á að gera einhverjar kröfur aukalega til að bæta orkunýtni bygginga? Er þetta eitthvað sem Ísland gæti fengið undanþágu frá? Eru líkur á að við fáum undanþágur? Bendir eitthvað til að slíkar breytingar muni leiða til kostnaðarhækkana fyrir almenning og fyrirtæki?

Þetta vitum við ekki, en við vitum að þetta er einhvers staðar þarna í öllum þessum pappírum og gerðum sem Evrópusambandið er búið að senda núna og samþykkja þannig að við hljótum að spyrja: Mun það mögulega geta bæst ofan á annan aukakostnað? Raforkuverð hækkar. Mun byggingarkostnaður hækka einnig?

Það kann að vera að á markaði þar sem er mikill fjölbreytileiki geti eitthvað af þessum gerðum öllum leitt til mikillar samkeppni og lægra orkuverðs einhvers staðar, en á Íslandi er í rauninni fákeppnismarkaður. Það er ekki hægt að bera þetta saman.