149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Kannski er þessi tregða til að kynna málið angi af því sem títtnefndur Eyjólfur Ármannsson segir sjálfur á bls. 2, með leyfi forseta:

„Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðrar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“

Menn finna til þess að þeir hafa vondan málstað að verja eins og málið er sett upp og kannski er það vegna þess sem menn treysta ekki þeim fyrirvörum sem halda ekki vatni eins og hefur komið margoft fram og góð rök að því leidd. Auðvitað er það skiljanlegt. Maður getur svo sem alveg samsamað sig því að þegar menn hafa virkilega vondan málstað að verja eru þeir kannski ekki mjög áfjáðir í að kynna þann málstað með bravör. Það gæti verið skýringin að hluta. Hitt er svo annað mál að enn hef ég ekki fundið skýringar, og ég hef leitað til hv. þingmanns um liðsinni, á því hvers vegna stjórnvöld, meiri hluti hér á Alþingi, hlusta ekki á varnaðarorð sérfræðinga. Það er önnur tregða. Fyrst menn eru svo óöruggir með sig, eins og Eyjólfur Ármannsson segir í sinni greinargerð, hvers vegna hlusta þeir ekki á varnaðarorð sérfræðinga?

Ég held að þetta sé þannig að menn hafi á sínum tíma fengið tvö álit sem hentuðu, hanga á þeim eins og hundar á roði en hlusta ekki á varnaðarorð sem margir sérfræðingar, ekki bara tveir, ekki þrír, heldur fleiri, hafa komið fram með um að innleiðingin sé ekki eins og hún á að vera og muni ekki (Forseti hringir.) ganga upp eins og menn ætla.