149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í minni ræðu að það væri skynsamlegt að velta því fyrir sér ef það er eitthvað í orkupakka fjögur sem kallar á stjórnskipulegan fyrirvara hvað það er og af hverju það er. Mér kæmi ekki á óvart þó að það væru náskyldar áhyggjur og af þeim málum sem við ræðum um í kvöld og ræddum í nótt eða í dag, orkupakka þrjú. Þess vegna er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur og förum fram á upplýsingar.

Það er líka rétt að það kemur fram í því sem birt hefur verið á vef Evrópusambandsins að það eru töluverðar breytingar á þessari ACER-stofnun sem um er að ræða, m.a. í þá átt að færa hana frá því að vera eitthvert eftirlitsdæmi eða með ráðgjafarhlutverk í það að hafa vald til að segja mönnum svolítið fyrir, til að tryggja að ríki séu ekki að setja reglur eða stunda einhverja starfsemi sem skemmir fyrir flæði á markaðnum.

Það er það sem þessi stofnun fær aukreitis núna, að því er virðist, með orkupakka fjögur.

Þetta allt finnst mér að þurfi að kryfja með því sem við erum að fjalla um núna vegna þess að þetta er eitt mál og ein samfella, þetta er orkustefna Evrópusambandsins og hefur verið það frá því að menn byrjuðu að innleiða þessi ósköp á Íslandi.

Það sem meira er er að við vitum ekkert hvort þetta er það síðasta sem mun koma og ég tel persónulega harla ólíklegt að svo sé. Meira hlýtur að koma í framhaldinu.