149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allt bendir til þess. Þrátt fyrir að mikið hafi verið fjallað um það að við efasemdarmennirnir um innleiðingu þriðja orkupakkans höfum verið undir hinum ýmsu áhrifum frá Noregi og að grín hafi verið gert að því að þingmenn hafi haldið rúmlega 30 ræður um mál sem mönnum þykir mikilvægt og mikið til koma, en fyrrverandi ráðherrar hafa skrifað 30 bloggpósta um það að Miðflokkurinn taki skipunum frá Noregi, hefur mér þótt þetta hálfundarleg nálgun fyrrverandi stjórnmálamanna og sérstaklega stjórnmálamanns, þar er ég að vísa í bloggsíðu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra.

Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég hef ekki orðið var við þessi miklu norsku áhrif á okkur efasemdarmenn um innleiðingu orkupakkans en norsku áhrifin og þau samevrópsku blasa við hvað varðar ríkisstjórnarflokkana. Hér mættu norskir ráðherrar og létu mynda sig með utanríkisráðherra við heyrúllur undir því yfirskini að flytja ætti einhverjar slíkar út til Noregs. Það trúir því ekki nokkur maður að erindi hins norska ráðherra til Íslands væri að láta mynda sig með hæstv. ráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni við heyrúllur. Auðvitað var eitthvað miklu meira undirliggjandi. Þetta er náttúrlega um það leyti sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur sína U-beygju, þannig að ég held að þrýstingurinn frá Noregi blasi við og hafi verið mjög afgerandi hvað varðar ríkisstjórnarflokkana en miklu minni hvað okkur efasemdarmenn varðar.