149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

um fundarstjórn.

[13:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við kunnum vel að meta það að forseti hefur lengt fundi þannig að við gætum tjáð okkur hindrunarlaust eða -lítið. Hins vegar er þannig mál með vexti með þetta mál að þingvilji er eitt og þjóðarvilji annað. Komið hefur í ljós samkvæmt skoðanakönnunum að meiri hluti þjóðarinnar er á móti þessu máli. Við teljum okkur skylt að kynna þetta mál fyrir þjóðinni sem best við getum, því að ríkisstjórnin hefur ekki gert það og ríkisstjórnarflokkarnir ekki heldur. Við höfum orðið vör við mikil viðbrögð af hálfu þeirra sem fylgst hafa með því nætur og daga sem hér hefur farið fram. Við teljum það í raun og veru skyldu okkar að upplýsa þjóðina um hvað felst raunverulega í þessu máli. Það er ekki við okkur að sakast að menn hafi sofið á sitt græna eyra og ekki viljað taka hér umræðu við okkur um málið, sem okkur þykir miður. En þá náttúrlega höldum við áfram að tala við þjóðina eins lengi og þarf og eins lengi eins og við getum.