149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afar mikilvægur þáttur í þessari umræðu, að fjalla um störf fjölmiðla, áhrifamátt fjölmiðla og framsetningu þeirra á máli eins og þessu, sem varðar almenning miklu og einnig komandi kynslóðir. Kannski er hluti af þessu sá að menn hafi ekki tamið sér þau vinnubrögð að horfa nægilega langt fram í tímann, að geta séð fram í tímann þau áhrif sem þetta getur haft. Að halda því fram að orkupakkinn hafi í raun og veru engin áhrif er að hluta til rétt að því leytinu til að það þarf sæstreng til að virkja öll ákvæðin, þó að vissulega muni reglugerðirnar hafa áhrif strax, eins og t.d. hvað varðar Orkustofnun, svo dæmi sé tekið. Fjölmiðlar sjá ekki nægilega fram í tímann og gefa sér ekki tíma til þess að velta upp öllum hliðum málsins.

Ég treysti persónulega fjölmiðlafólki til að vinna sína vinnu ágætlega í flestum tilfellum og við eigum mjög vandaða blaðamenn sem ættu að gefa sér góðan tíma í að fara í kjölinn á máli sem þessu. En rekstrarumhverfi fjölmiðla er orðið með öðrum hætti en var. Þar hefur komið til tals að styrkja fjölmiðlana með einhverjum hætti vegna þess að (Forseti hringir.) markaðshlutinn er orðinn svo stór á þeirra vegum.

Þetta er efni í heila ræðu sem ég gæti tekið síðar, en segi þetta (Forseti hringir.) gott í bili.