149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér fannst mjög athyglisvert þegar hann fjallaði um tengingarnar til Kýpur. Auk þess nefndi hann Ísrael í þessu sambandi og aðkomu ACER að þeim málum. Það hefur einmitt komið fram í umræðum í þinginu og við upphaf þessarar umræðu hér — ég man sérstaklega eftir því að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hélt því statt og stöðugt fram að ACER kæmi hvergi nálægt tengingum milli landa.

Nú hefur hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hrakið þessar fullyrðingar hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, sem sýnir það enn og aftur hversu margar rangfærslur eru í málflutningi stjórnarliða. Það vekur mann til umhugsunar um að annaðhvort eru þessir þingmenn illa að sér í málinu eða þeir eru að reyna að afvegaleiða umræðuna. Það er að sjálfsögðu alvarlegur hlutur. En þarna færir hv. þingmaður okkur rök fyrir því að ACER sé í raun og veru það yfirþjóðlega vald sem við höfum alltaf haldið fram að það væri, sem kæmi til með að stjórna þessu, tengingu á milli landa og öllum þeim stjórnsýslulegu ákvörðunum sem tengjast því og þar með höfum við ekkert um það að segja sem lýtur sérstaklega að fullveldinu.

Ef hv. þingmaður gæti kannski aðeins farið nánar út í (Forseti hringir.) þessa aðkomu, þá á ég t.d. við stjórnsýslulega þáttinn (Forseti hringir.) og hvort viðkomandi ríki hafi ekkert um það að segja. Hvort hann þekki það varðandi Kýpurdæmið.