149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil halda áfram umfjöllun minni um raforkusamninga til stóriðjunnar og hvernig ákveðnir hv. þingmenn hafa fagnað því að raforkuverð til stóriðjunnar sé að hækka, sérstaklega ber að nefna raforkusamning til Elkem en tilkynnt var í gær að raforkuverðið til fyrirtækisins hefði hækkað umtalsvert.

Ég geld varhuga við að fagna mjög þeim fréttum. Vissulega á stóriðjan að greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir raforkuna en við megum ekki hækka eða breyta þessum samningum þannig að það fari svo að slík fyrirtæki sjái hreinlega ekki hag í því að vera með starfsemi hér á landi lengur og leggi niður starfsemi.

Verkalýðsleiðtogar hafa lýst áhyggjum sínum af því. Vilhjálmur Birgisson, eins og ég nefndi í fyrri ræðu um sama efni, hefur lýst þungum áhyggjum af því að raforkuverð sé að hækka mikið til þessara fyrirtækja. Ég ræddi sérstaklega um Elkem í því sambandi en mig langar núna að víkja aðeins að raforkusamningi við Ísal í Straumsvík.

Landsvirkjun gerði raforkusamning við Ísal árið 2010 og nánast frá þeim tíma var álverið í Straumsvík rekið með tapi. Ég held að margir geti verið sammála því að það hafi munað mjög litlu að Ísal hætti starfsemi árið 2015. Það hefði verið mikið áfall fyrir atvinnulífið, það eru fjölmörg störf sem skapast í tengslum við starfsemi fyrirtækisins, bæði bein störf starfsmanna sem starfa þar og einnig afleidd störf sem eru fjölmörg, þ.e. ýmis fyrirtæki sem þjónusta álverið. Þarna munaði litlu að fyrirtækið hætti starfsemi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir okkur. Það má eiginlega segja að það hafi verið móðurfélagið eða nokkurs konar móðurfélagsábyrgð á raforkusamningnum sem kom í veg fyrir lokun.

Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé stefna Landsvirkjunar að koma málum þannig fyrir að rekstrarforsendur fyrirtækja í orkufrekum iðnaði verði hægt og bítandi á þann á hátt að þau sjái sér ekki fært að starfa hér lengur og myndu þúsundir starfa tapast ef sú yrði raunin.

Gleymum því ekki að það er umframorka í kerfinu í dag. Hún nýtist ekki. Það er hugsanlegt að þessi fyrirtæki dragi úr starfsemi sinni, hætti kannski ekki starfsemi en dragi úr henni, sem hefur væntanleg áhrif á afkomu fyrirtækjanna og raforkusamninga sem eru í flestum tilfellum afkomutengdir, þ.e. rekstri fyrirtækjanna.

Það verður að segjast að það er áhyggjuefni hvernig Landsvirkjun hefur hagað málum sínum hvað þetta varðar og nauðsynlegt að ræða þetta í samhengi við þessa (Forseti hringir.) umræðu. Ég kem nánar inn á málið á eftir og held áfram að fjalla um það, herra forseti, og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.