149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Hann hefur í mörgum ræðum fjallað töluvert um hugsanlega hækkun á raforkuverði og þá til fyrirtækja en einnig til heimila og hefur nefnt nokkuð margar staðreyndir til sögunnar máli sínu til stuðnings. Mig langar aðeins að velta upp því sem hér var rætt rétt áðan í sambandi við svokallaðar sviðsmyndir, hvort það sé algjörlega vöntun á þeim og hvaða áhrif þetta kunni að hafa á efnahagslífið. Við ræðum hér grunnstoðir samfélagsins þannig að það væri gott ef slíkar sviðsmyndir hefðu legið fyrir.

Það er líka vert að minnast orða hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar þegar hann sagði: Ef maður veit ekki hvert maður er að fara skiptir í raun engu máli hvaða leið maður velur. Kannski er það kjarni málsins, að ekki sé búið að setja upp slíkar sviðsmyndir. Við höfum ekki neina orkustefnu og það er ýmis iðnaður undir og stór fyrirtæki.

Mig langar aðeins að velta upp einni spurningu sérstaklega um ákallið frá Evrópusambandslöndunum um hreina orku. Við vitum að við erum með næga hreina orku og vitað er að skortur er á henni í Evrópu. Hvernig myndi bara það eina atriði hafa áhrif á fyrirtæki og heimili í landinu?