149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búinn að greina neitt sérstaklega áhrifin af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu á mögulega stöðu mála er varða innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi. Það er bara enn eitt atriðið í þá púllíu sem undirbyggir það hversu skynsamlegt væri að fresta málinu um sinn, gefa þinginu og hagaðilum tækifæri til að kafa ofan í efnisatriði eins og t.d. það hvaða áhrif, ef einhver, útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur á stöðu Íslands í þessu samhengi öllu. Það hefur auðvitað verið þannig að allar vangaveltur um lagningu sæstrengs frá Íslandi, held ég að mér sé óhætt að segja, hafa í öllum meginatriðum gengið út á að strengur kæmi til lands einhver staðar á Bretlandseyjum. Ég held því að sú greining þurfi að eiga sér stað áður en við getum með einhverjum skynsamlegum hætti klárað þetta mál. En viðbrögðin eru af sama meiði hvað þetta atriði varðar og annað, hvort sem það er fjórði orkupakkinn eða yfirlýsingar um að nú séu menn tilbúnir með fullfjármagnað sæstrengsverkefni, ekkert það atriði nýtt virðist geta komið fram í þessu máli sem neinn fulltrúi þeirra sem eru áhugasamir um innleiðingu telja ástæðu til að skoða frekar.