149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:59]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt þannig að við höfum dýpkað umræðuna. Ég man að fyrst þegar við byrjuðum að fjalla um orkupakka þrjú þá fannst mér málið mjög flókið og jafnvel erfitt að greina alla þræði sem virtust blasa við ef maður náði að rekja málið upp, ef svo má segja. Það er því ekkert skrýtið að við höfum fengið margar kveðjur og hvatningu til að halda umræðunni áfram, af því að sífellt eru að bætast við frekari upplýsingar um afleiðingar þess að fara með málið í gegn á þeim forsendum sem nú á að gera, auk þess sem stór álitamál eru undir eins og hvað varðar stjórnarskrána og framsal valds og slíkir þættir.

Þetta eru stór mál og við vitum að fólk hefur kallað eftir frekari upplýsingum. Við höfum reynt að veita þær eins vel og við getum. Við höfum einnig tekið þær ábendingar sem við höfum fengið og reynt að vinna með þær, því að það snertir þá þræði sem ég nefndi hér í byrjun. Þeir eru það margir að nauðsynlegt er að við reynum að nálgast allar hliðar málsins.

En mig langar aðeins að velta upp einni spurningu í viðbót til hv. þingmanns hvað varðar ákall Evrópu um hreina orku. Það snýr þá einna helst að okkar hreinu orku hér á landi sem við höfum notið hingað til. Hvort hv. þingmaður deili því ekki með mér að ég hef áhyggjur af því að við munum hugsanlega ekki geta haft stjórn á orkumálum okkar verði orkupakki (Forseti hringir.) þrjú innleiddur eins og núna er ætlunin.