149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Við búum í landi þar sem hver einstaklingur er dýrmætur. Eftir þennan þingvetur er því nokkuð sérstakt að ekki hafi verið komið til móts við sanngjarnar og eðlilegar kröfur lífeyrisþega um bætta afkomu. Flestir ef ekki allir hér í þingsal hafa til að mynda léð máls á því að nú sé rétti tíminn til að afnema krónu á móti krónu skerðingu og því sætir furðu að enn sé verið að skerða krónu á móti krónu.

Einnig hefur komið fram í dagsljósið að öryrkjar hafa þurft að sætta sig við ólögmætar búsetuskerðingar og það um langa hríð og mér sýnist ekki eiga að koma til móts við þá á næstu misserum vegna þess þrátt fyrir augljóst lögbrot.

Heilbrigðiskerfið er okkur dýrmætt og það er mín sýn að við eigum að nýta alla þá krafta sem standa til boða. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að stytta eigi biðlista til liðskiptaaðgerða hefur lítið sem ekkert þokast í þeim efnum. Mikill fjöldi bíður enn og fjöldi fólks hefur stigið fram og lýst virkilega sárum aðstæðum. Á það fólk hefur ekki verið hlustað. Það verður að segjast hér að ekki hafa allir efni á því að greiða fyrir slíka aðgerð úr eigin vasa og við skulum hafa það hugfast að allir íbúar landsins eiga jafnan rétt á að njóta þjónustu heilbrigðiskerfisins. Flestir þurfa einhvern tímann á ævinni á henni að halda svo það er merkileg staðreynd að staðan sé svona. Enn er ósamið við sérgreinalækna sem svo sannarlega gætu létt undir með svo mörgum. Stjórnvöld hafa því miður tekið þann pól í hæðina að taka ekki fagnandi á móti öllum þeim aðilum sem hafa getu og vilja til að leggja lið. Það eitt og sér er umhugsunarefni.

Óviðunandi bið er eftir greiningum hjá Þroska- og hegðunarstöð og ég veit fyrir víst að starfsfólk þar er allt af vilja gert til að sinna starfinu sínu af alúð en það þarf meira til.

Svo til sama staða er hjá Greiningarstöð ríkisins. Þar er biðtími eftir greiningu og þar með viðeigandi aðstoð. Það er algjörlega ólíðandi. Ljóst er að stjórnvöld eru á rangri leið. Við segjum gjarnan að fólk eigi að leita sér hjálpar. Við segjum þetta sérstaklega þegar um geðheilbrigði er að ræða. En hvað mætir svo fólki sem virkilega reynir að fá hjálp? Ekkert annað en úrræðaleysi. Það er mjög vont að vita af því, en svona er raunveruleg staða og stjórnvöld verða að gera betur.

Vissulega hefur stöðugildum sálfræðinga við heilsugæsluna verið fjölgað en það er ekki nóg, það er bara alls ekki nóg og stjórnvöld verða að gera betur. Það skortir raunverulega stefnu og aðgerðaáætlun á mörgum sviðum innan velferðar- og heilbrigðissviðsins og ég nefni hér endurhæfingu, öldrunarþjónustu, lýðheilsu, forvarnir, stefnu um dvalar- og hjúkrunarheimili sem og geðheilbrigðismál. Ríkisstjórnin virðist t.d. ekki gera sér grein fyrir því að öldruðum fjölgar og samræma þarf þjónustu vegna þess. Þar sem málasvið skarast á milli ríkis og sveitarfélaga virðist alltaf sá leikur hefjast að hver bendi á annan. Þeir sem líða fyrir það eru fólkið sem þarf svo bráðnauðsynlega á þjónustu að halda, eðlilega.

Að lokum vil ég benda á að uppbygging heilbrigðisþjónustu á að vera um allt land. Við sjáum nú þegar að ekki gengur lengur að stefna öllum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda á einn spítala við Hringbraut. Hugsa þarf upp á nýtt hvernig standa á sannarlega við það fyrirheit að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og það er furðulegt að sjá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn beygja sig fyrir stefnu Vinstri grænna í jafn mikilvægum málaflokki og velferðar- og heilbrigðismálin eru. — Góðar stundir.