149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Orkupakkamálið var kynnt með þeim hætti að óhætt væri að samþykkja það vegna þess að ríkisstjórnin hefði gert við það lagalegan fyrirvara. Stjórnarliðar hafa hvorki getað útskýrt fyrir þingmönnum né þjóðinni hvað felst í þessum lagalega fyrirvara eða hvar hans er að leita, en hann virðist helst felast í einhverjum skilningsríkum samtölum við menn úti í Evrópu eða reglugerðardrögum uppi í ráðuneyti. Þeir hafa heldur ekki getað útskýrt fyrir þjóðinni hverjar verða afleiðingar þess ef þessir fyrirvarar standast ekki. Stjórnarliðum er fyrirmunað að útskýra málið og álitaefni þess með fullnægjandi hætti. Það hefur þeim svo sannarlega ekki tekist og virðast á stundum ekki hafa það fyllilega á valdi sínu.

Í stað þess að upplýsa almenning um margar og flóknar hliðar þessa máls er umræðunni stýrt þannig að hún fari helst fram að næturlagi og hæstv. forseti og þeir sem fara með dagskrárvaldið slá nú bæði sín eigin met og annarra í lengd funda á Alþingi í þeim tilgangi, að því er virðist, að svæfa umræðuna með áberandi samverknaði margra fjölmiðla.

Samningsbrotamál gegn Íslandi og milljarða bótakröfur geta lent í fangi okkar í skaðabótamálum eins og lögfræðilegir ráðunautar og fleiri lagamenn hafa varað við. Þeir átta fyrirvarar sem Norðmenn gerðu við málið eru ekki til umræðu hér þrátt fyrir að þar séu uppi málaferli um gildi þeirra og er tíðinda af því máli að vænta með haustinu. Ríkisstjórnin fæst heldur ekki í samhengi við þetta mál til að ræða fjórða orkupakkann sem er fullsmíðaður upp á 1.000 blaðsíður. Sá pakki hefur ekki verið kynntur þingmönnum. Á meðan liggur sá þriðji hér fyrir til samþykktar.

Til að geta rætt málið ofan í kjölinn og áhrif þess á yfirráð okkar yfir mikilvægustu orkuauðlindum þjóðarinnar þurfa allar upplýsingar að liggja fyrir.

Hvað er það sem kemur í veg fyrir að málinu verði frestað og skoðað með tilliti til allra þeirra álitaefna sem uppi eru? Hvað óttast menn við að leggja afstöðu sem stjórnarliðar sjálfir hafa um að Ísland muni ekki tengjast orkumarkaði Evrópu fyrir skilningsríka fulltrúa Evrópu, Evrópska efnahagssvæðisins, og leita eftir undanþágu frá þeim ákvæðum í regluverkinu sem mestur vafi er á um að standist stjórnarskrá? Hvað óttast menn, herra forseti?

Á það hefur verið bent að samþykkt orkupakkans ryðji brautina til fullrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sérkennilegt að það sé hlutskipti Vinstri grænna sem forystuflokks í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að teppaleggja þannig brautina inn í Evrópusambandið. Margir af kjósendum þeirra hljóta að undrast þetta mjög.

Ágætu landsmenn. Við höfum reynslu af samningsbrotamáli þar sem við höfum leitast við að verja heilbrigði íslenskra búfjárstofna og um leið lýðheilsu almennings. Eftir að hafa tapað slíku máli fyrir EFTA-dómstólnum hafa fyrirtækjum verið dæmdar háar skaðabætur úr ríkissjóði. Ráðunautar ríkisstjórnarinnar og fleiri lagamenn hafa bent á augljósa hættu á að eins fari í málum sem aðilar á borð við breska sæstrengsmenn gætu höfðað. Í slíkum málum yrðu þó fjárhæðirnar aðrar og hærri.

Góðir áheyrendur. Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi búfjárafurða, svo sem frystiskyldu, muni þýða aukna hættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Þær bakteríur sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum sem til eru geta borist með matvælum í menn. Þær finnast nú æ oftar í búfé og matvælum í löndum þar sem mikið magn sýklalyfja er notað í landbúnaði eins og víða í Evrópu. Heimild til innflutnings býður upp á aukinn innflutning kjöts sem inniheldur þessar fjölónæmu bakteríur. Íslenskir búfjárstofnar hafa búið í einangrun í nær 1200 ár og aldrei komist í snertingu við smitefni margra þeirra búfjársjúkdóma sem landlægir eru í Evrópu og víðar um heiminn. Ef smit berst til landsins er líklegt að það geti valdið miklu tjóni með afleiðingum sem enginn getur séð fyrir. Viljum við taka þá áhættu? Bændasamtökin telja hafið yfir allan vafa að innflutningurinn muni valda íslenskum landbúnaði miklu tjóni og aðgerðaáætlun landbúnaðarráðherra dugi skammt. Áætlun ráðherra verður að bæta, tímasetja og fjármagna áður en málið er afgreitt.

Kæru Íslendingar. Efnt var til umræðna á Alþingi sl. haust um þann margháttaða vanda sem margir drengir og ungir karlmenn virðast eiga við að stríða í samfélaginu. Sá vandi birtist í að þeim virðist líða verr í skólakerfinu og ganga þeirra eftir menntaveginum er torsóttari en stúlknanna. Þeir falla fremur á brott úr skólum og fara síður í háskólanám og virðist sú tilhneiging vera að aukast. Iðjuleysi, þunglyndi, fíkniefnanotkun, slysatíðni, afbrot og tölvufíkn meðal drengja og ungra karlmanna er það sem margar fjölskyldur þekkja af eigin raun. Þennan vanda margra drengja og ungra karlmanna þarf að ræða miklu meira en hingað til. Leita þarf lausna og grípa til aðgerða því að hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem skiptir okkur miklu.

Ég kalla eftir raunhæfum aðgerðum af hálfu stjórnvalda í málinu. Við getum ekki setið aðgerðalaus hjá og horft á þennan vanda vaxa. — Góðar stundir.