149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Elskulegir Íslendingar. Alþingi er átakavettvangur. Ólíkt fyrirtæki eða félagasamtökum sem starfa í átt að sameiginlegu markmiði vinna þingmenn ekki að sömu markmiðum, eðlilega ekki. Ef svo væri mætti rétt eins vera einræði. Á átakavettvangi má gera ráð fyrir því að menningin verði alltaf aðeins barnalegri, miklu óskilvirkari og átakasæknari en myndi nokkurn tíma líðast í heilbrigðu fyrirtæki eða félagasamtökum.

Annar fylgifiskur átakavettvangsins er óhófleg íhaldssemi. Þegar flokkar eru lengi við völd venjast þeir fyrirkomulaginu sem er og vilja allra síst breyta því, ekki af því að þeim finnist það vera fullkomið heldur vegna þess að þeir kunna á það og hætta ekki á að misstíga sig í einhverju nýju. Hér á bæ virðist íhaldssemi ekki einungis vera sérstakt gildi heldur beinlínis byggð með hálftrúarlegu ívafi. Reyndar er hún á köflum svo mikil að hún verður hreinlega hlægileg. Það eru ekki mörg ár síðan þurfti í alvörunni talað, í fúlustu alvöru, að rökræða hvort heimila ætti tölvur í þingsal. [Lágvær hlátur í þingsal.] Smáflissað, gott.

Nokkrar einfaldar hugmyndir til að koma salnum aðeins í stuð: Að gera þingmönnum kleift að nota glærur í ræðum sínum, að úthluta sætum eftir þingflokkum frekar en af handahófi eða byggja nýjan þingsal þannig að nútímaupplýsingaverkfæri komist fyrir í honum — og þingmenn sjálfir. Ég nefni þessar blásaklausu og venjulegu hugmyndir til að benda hv. þingmönnum á fáránleikann í því að þær yrðu svo mikið sem alvarlega íhugaðar. Miðað við þægindaramma íhaldsmenningarinnar á Alþingi eru þær reyndar algjörlega út úr kortinu. Þetta eru einungis einföld praktísk atriði sem skipta næstum því engu máli í stóra samhenginu. Íhaldssemin minnkar ekkert þegar stungið er upp á mikilvægari breytingum eins og að aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald, láta þingið kjósa forsætisráðherra og láta forsætisráðherrann bera ábyrgð á sínum ráðherrum, skylda þingið til að fjalla um mál að frumkvæði kjósenda, að setja stjórnarskrársamhæfni inn í löggjafarferlið sjálft. Reyndar verð ég bara að vísa á frumvarp um nýja stjórnarskrá með aragrúa af góðum, einföldum, ódýrum og hógværum hugmyndum sem gætu bætt bæði Alþingi, samfélagið okkar og lýðræðið allmikið. Það má alveg rökræða þær hugmyndir en þær verða ekki einu sinni almennilega íhugaðar af íhaldsöflunum af þeirri einföldu ástæðu að þær fela í sér breytingar yfir höfuð.

Virðulegi forseti. Það er löngu orðið alvarlegt hversu lítils trausts Alþingi nýtur í samfélaginu. Þingmenn geta kennt því um sem pirrar þá sjálfa hverju sinni, málþófi Miðflokksins eða klæðaburði Pírata, en það er ekki málið. Miklu frekar er það hvernig rótgróin og háheilög íhaldssemin heldur aftur af þróun Alþingis og lýðræðisins sjálfs, þessi sjúklega forneskju- og hefðardýrkun sem upphefur hluti sem skipta ekki máli á kostnað þeirra sem gera það.

Talandi um hluti sem skipta ekki máli, ég ætlaði upprunalega ekki að ræða þriðja orkupakkann í dag [Hlátur í þingsal.] en í hinni almennu umræðu þess máls kristallast nákvæmlega þessi vandi. Áhyggjur af þriðja orkupakkanum eru í reynd áhyggjur af eignarhaldi og nýtingarrétti yfir auðlindum, framsali ríkisvalds, samhæfi við stjórnarskrá og rétti þjóðarinnar til að grípa inn í mál sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta eru atriði sem hafa verið í deiglunni áratugum saman. Er nema von að fólk vantreysti Alþingi þegar jafn smávægilegt mál og þriðji orkupakkinn er farið að snúast um stjórnarskrárbreytingar sem Alþingi hefur trassað frá stofnun lýðveldisins.

Samhliða þingstörfum þróast nefnilega samfélagið mjög hratt. Fólk skellir upp fjarfundi með símanum sínum með engum fyrirvara og greiðir atkvæði yfir internetið í félagasamtökum, það auðkennir sig í gegnum netið, verslar í gegnum netið, skiptir um lögheimili og nær í menntunarvottorð sín á miðlægu svæði frá yfirvöldum. Svo nýtir fólk tæknina til að líta á hvað Alþingi er að gera og sér — þetta. Jú, þetta er fallegur þingsalur og væri afskaplega fallegt safn en sá hefðarinnar dýrðarljómi sem fólk sér í honum endurspeglast ekki í því hvernig Alþingi virkar. Raunveruleg virðing fyrir Alþingi krefst þess að Alþingi breytist í takt við tímann í andstöðu við íhaldssemina sem heldur aftur af því.

Fortíðin var glötuð, virðulegi forseti. Nútíminn er góður. Það litla sem við getum sagt um framtíðina með nokkurri vissu er að hún kemur og ég legg til að Alþingi taki á móti henni með opnum hug, brosi á vör og hlýju í hjarta.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. — Dúndursamlegar stundir.