149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Við lok þingvetrar í umræðu sem við væntum að skili sér inn í eldhús og til eyrna landsmanna er eðlilegt að horfa yfir viðfangsefni síðustu mánaða og til næstu verkefna.

Umfjöllun um auðlindir á landi hefur verið töluverð, m.a. að frumkvæði okkar Framsóknarmanna. Fjallað hefur verið um landnýtingu, ráðstöfun og eignarhald jarða, ráðstöfun og nýtingu takmarkaðra auðlinda á landi, fyrirkomulag samstarfs um skipulag, nýtingu og vernd miðhálendisins og náttúruverndarsvæða, nýtingu lands í vinnunni gegn loftslagsbreytingum og sett hafa verið ný heildarlög, bæði um landgræðslu og skógrækt.

Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Land nýtist í margt, svo sem til matvælaframleiðslu og sem aðdráttarafl ferðamanna, og landi geta fylgt hlunnindi eins og veiði-, námu- og vatnsréttindi. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og um hverja aðra fasteign væri að ræða.

Tryggja þarf eignarhald landsmanna, takmarka fjölda jarðeigna í eignarhaldi sömu aðila, skýra ábyrgð og skyldur þeirra sem fara með ráðstöfunarrétt á landi, nýta skipulag betur sem stjórntæki við landnýtingu og bæta skráningu landeigna. Ég hef miklar væntingar til vinnu sem nú er unnin á vegum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun laga og reglna varðandi eignarhald á landi og fasteignum.

Í vinnu við gróður- og jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og uppbyggingu gróðurauðlindar veltur á miklu að rækta samstarf við bændur og aðra sem bera ábyrgð á landi eða búa í strjálbýli. Áskorunin er að flétta saman sem flest markmið uppbyggingar, verndar og sjálfbærrar nýtingar við landnotkun, landgræðslu, skógrækt og landvörslu. Samvinna skilar samfélagslegum ávinningi langt umfram það sem gerist ef hver vinnur í sínu horni. Þar á meðal er skilgreind nágrannavarsla við náttúruperlur og viðkvæm svæði. Við vorum svo rækilega minnt á það nú í vor, þegar ryk frá Sahara fauk yfir landið, að alþjóðasamfélagið þarf að leggja miklu meiri áherslu á landgræðslu í baráttunni gegn fátækt og loftslagsvánni.

En getum við ekki öll verið sammála um að samfélagsleg verðmæti felist í byggð um land allt? Verkefni okkar hér er að tryggja öllum byggðum tækifæri til þróunar. Það gerum við m.a. með skýrri sýn á uppbyggingu samgangna, fjarskipta og dreifikerfis raforku.

Í vetur höfum við undir dyggri forystu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, afgreitt samgönguáætlun sem boðar stórsókn í samgöngumálum og nú stendur yfir vinna við fjarskiptastefnu þar sem markmiðið er að Ísland verði áfram í fremstu röð með trausta og örugga fjarskiptainnviði. Í samfélagi þar sem þjónusta er samþjöppuð á litlu svæði þarf að tryggja grunninnviði en líka jafna jafnan flutningskostnað innan lands, kostnað við flutning á raforku, kostnað við flutning á fólki, kostnað við gagnaflutning um ljósleiðara, kostnað við vöruflutninga til og frá markaði því þessir þættir mega ekki vera hindrun fyrir samkeppnishæfni byggðarlaga því að þessir þættir mega ekki vera hindrun fyrir samkeppnishæfni byggðarlaga. Dæmi um lausnir á þessum vanda sem eru á dagskrá er eitt dreifikerfi raforku og sama verð til allra fyrir dreifingu orkunnar og skoska leiðin í fluginu.

Í lífskjarasamningunum og stuðningsaðgerðum stjórnvalda tókst að flétta saman ýmis samfélagsleg markmið sem hafa jákvæð áhrif langt út fyrir þann hóp sem átti fulltrúa við samningaborðið. Í niðurstöðunni eru mikilvægir hvatar til áframhaldandi þróunar samfélagsins og vinnumarkaðarins, svo sem með styttingu vinnuviku. Þar eru líka aðgerðir sem hafa mikil áhrif á velferð barna, eins og lenging fæðingarorlofs, breytingar á barnabótum og aðgerðir til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast húsnæði.

Velferð barna er grunnur að góðu samfélagi og því betur sem tekst að skapa umhverfi sem tryggir börnum öryggi, stöðugleika og jafna stöðu frá fæðingu, því minni þörf verður fyrir sérstakan stuðning við einstaklinga. Í vetur höfum við reglulega fengið sláandi upplýsingar um málefni barna í samfélaginu en á Íslandi búa um 80.000 börn. Fleiri en 13.000 þeirra verða fyrir ofbeldi og það eru börn á Íslandi sem ekki búa við ásættanleg efnisleg gæði.

Forysta hæstv. félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um að setja málefni barna á dagskrá og í forgang, er mikilvæg. Ég er full auðmýktar gagnvart verkefninu sem við í pólitískri nefnd um málefni barna erum að vinna, þ.e. endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu. Á sama tíma er gott að vita af frumkvæði og forystu hæstv. menntamálaráðherra, sem hefur nú þegar sett af stað heildarstefnumörkun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og tekið af skarið um mikilvægi kennarastarfsins fyrir umbætur í skólastarfi og þar með í málefnum barna.

Ágætu landsmenn. Öll verkefni stjórnmálanna eru samvinnuverkefni sem hríslast um allt samfélagið. Vinna okkar þarf að sameina krafta og hvetja til þróunar á öllum sviðum. Við getum aldrei leyft okkur að hafa bara eitt mál á dagskrá og það er aldrei nóg að segja nei, það þarf alltaf að finna lausnir. — Bestu óskir um gott sumar um allt land. Áfram veginn.