149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:12]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Orðið eldhúsdagsumræður vísar samkvæmt hefð til þess að ríkisstjórn geri hreint fyrir sínum dyrum, hreinsi til í eldhúsinu í lok þingvetrar. En það verður að segjast eins og er að eldhús ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lítur út eftir veturinn eins og eldhús fólks sem kaupir þangað inn dýrustu og fínustu tækin sem völ er á en borðar síðan úti á hverjum degi. Eldhúsið býður vissulega upp á tilþrif en það gerist ekkert þar. Og það er auðvitað ekkert að þessu þegar fólk hefur efni á svona lífsstíl. En bókhald ríkisstjórnarinnar er því miður af öðrum toga. Þegar þrír flokkar ákveða að starfa saman í anda afturhalds og íhaldssemi og krydda samstarfið að auki með fordæmalítilli aukningu ríkisútgjalda á varhugaverðum stað í hagsveiflu þjóðar er ekki við góðu að búast, en þetta er umræða sem bíður annars tíma.

Hér er hins vegar vert að verja nokkrum orðum í hluta þeirra mála sem eru í sjálfheldu, fyrst og fremst vegna dulinnar og stundum ekki svo mjög dulinnar togstreitu á milli stjórnarflokkanna þriggja. Þegar kemur að öðru en vörn fyrir sérhagsmunum þá fer nefnilega lítið fyrir samstöðunni.

Orkupakkinn okkar er í þeirri stöðu sem við þekkjum fyrst og fremst vegna dugleysis ríkisstjórnarinnar við að klára málið fyrr í vetur. Þar var þeim ekkert að vanbúnaði, það skorti bara samstöðuna.

Eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar í vetur, samgönguáætlun til fimm ára, var dauðadæmd frá upphafi vinnunnar. Því olli ósætti innan stjórnarflokkanna. Samgönguráðherra boðar nýja og betrumbætta samgönguáætlun næsta haust. Við bíðum spennt. Landbúnaðarráðherra hefur staðið í stappi við stjórnarþingmenn sem telja sjálfstæði okkar og fullveldi ógnað ef aðrir en íslenskir kjötframleiðendur fái að flytja inn ferskt útlenskt kjöt. Og eitt stærsta mál heilbrigðisráðherra, þungunarrofsmálið, fór í gegnum þingið í krafti stjórnarandstöðuflokka. Það eru ekki óbreyttir stjórnarþingmenn sem leiða þessa andstöðu. Formaður Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði gegn máli heilbrigðisráðherra og formaður Framsóknarflokks hefur lýst yfir skýrri andstöðu við kjötmál landbúnaðarráðherra. Það mál er nú í breytingaferli stjórnarflokkanna.

Það verður þó að taka fram, svo að allrar sanngirni sé gætt á þessum fallega degi, að það ríkir einhugur innan ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins, sama hvað það kostar og sama hverjir líða fyrir.

Þegar kemur að málefnum hinsegin fólks lýsir forsætisráðherra því yfir að hún vilji koma Íslandi í fremstu röð í heiminum og ég trúi henni. En dómsmálaráðherra kemur með hælkrók á móti og vill þrengja ákvæði um hatursorðræðu, nokkuð sem alls staðar á byggðu bóli er talið eitt helsta skaðræðið þegar kemur að mannréttindabrotum á minnihlutahópum, þar með talið hinsegin fólki.

Og að lokum, herra forseti, kann það að vera einhverjum umhugsunarefni að við leiðtogatíð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skuli umhverfismál verið jafn lítt sýnileg í störfum Alþingis og raun ber vitni. Ég á við í raunverulegum störfum. Það er nóg um fögur fyrirheit um stórsóknir þar eins og annars staðar hjá þessari ríkisstjórn. Réttmæt gagnrýni á loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er öllum kunn. Nú stefnir í að stjórnarmeirihlutinn stöðvi frumvarp umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum annað vorið í röð og það sama má segja um þjóðgarðafrumvarp umhverfisráðherra, en enn standa vonir, a.m.k. einhverra stjórnarliða, til þess að stjórnarfrumvarp um loftslagsmálin nái í gegn.

Herra forseti. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók til starfa hefur verið boðið upp á fátt bitastætt. Það er rifist um uppskriftir á bak við tjöldin en minna verður úr matreiðslunni. En svo er það spurningin: Er nokkur ástæða til að kvarta yfir því? Og það er umhugsunarefni. — Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.