149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Á Alþingi Íslendinga gilda ákveðnar leikreglur. Forseti hvers tíma ræður dagskrá og afhendir engum dagskrárvald. Við Miðflokksfólkið höfum ekki farið fram á dagskrárvald. Við höfum ekki fengið það. Við höfum hins vegar boðist til að greiða götu annarra mála á þinginu undanfarið. Það hefur ekki verið þegið.

Þingfundir hafa staðið af áður óþekktri lengd við litla aðsókn en við kvörtum ekki yfir því vegna þess að oft var þörf en nú var nauðsyn.

Hverju hefur þetta skilað? Fyrir framlagningu þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann vissum við ekki að VG, Vinstri græn, væru helstu málsvarar markaðsvæðingar orkuauðlinda þjóðarinnar. Við vissum heldur ekki þá að Vinstri græn vildu stuðla að því að hér á landi yrðu reistir stórir vindmyllugarðar og smávirkjanir víða um land með tilheyrandi náttúruspjöllum. Við vissum heldur ekki þá að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndu ganga á bak samþykktum flokksstofnana sinna um málið. Við vissum ekki fyrir tíu dögum að orkupakki fjögur væri tilbúinn en við vitum það núna. Við vissum ekki fyrir tíu dögum að fullfjármagnaður sæstrengur væri tilbúinn, svo að segja í bakgarðinum okkar, á vegum stórfyrirtækis sem segir á heimasíðu sinni að fyrirtækið sé í góðu talsambandi við ráðherra í öllum ríkisstjórnarflokkunum og að stuðningur við verkefnið sé að aukast þverpólitískt. [Hlátur í þingsal.] Við vissum ekki um þá almennu skoðun meðal færustu lögmanna að fyrirvarar í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um þriðja orkupakkann væru ónýtir en við vitum það núna. Við vissum ekki fyrir tíu dögum að stjórnlagadómstóll Noregs myndi taka fyrir innsetningu þar í september nk. fyrir innleiðingu orkupakkans.

En allt þetta vitum við nú að loknum þeim umræðum sem átt hafa sér stað undanfarið og dýpkað hafa skilning og þekkingu á málinu.

Við vitum hins vegar ekki enn hví lá svo á að keyra þetta mál í gegnum þingið í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar.

En þetta er í stuttu máli afrakstur undanfarandi daga og nótta. Vel þess virði og líka nauðsynlegt að vita fyrir alla þá sem hafa hlustað og fylgst með málinu, sumir nætur og daga.

Þá þarf ég líka að þakka öllum sem hafa sent okkur kveðjur og stutt okkur með ráðum og dáð. Þið vitið hver þið eruð. Hafið hjartans þakkir fyrir.

Myndum við berjast svona aftur, áheyrendur góðir? Já. Fyrir framtíðarhagsmuni þjóðarinnar, já. Fyrir framtíð barnanna okkar, já. Fyrir skoðunum meiri hluta þjóðarinnar sem stendur fjarri ákvarðanatöku? Já, svo sannarlega.

Í ljóði eftir Guðmund Böðvarsson sem heitir Fylgd er að finna m.a. þessi tvö erindi, með leyfi forseta:

Hér bjó afi og amma

eins og pabbi og mamma.

Eina ævi og skamma

eignast hver um sig.

— stundum þröngan stig.

En þú átt að muna

alla tilveruna,

að þetta land á þig.

Ef að illar vættir

inn um myrkragættir

bjóða svikasættir

svo sem löngum ber

við í heimi hér,

þá er ei þörf að velja:

þú mátt aldrei selja

það úr hendi þér.

Ríkisstjórnarflokkarnir æsa upp það versta í fari hver annars. Samruni VG og Sjálfstæðisflokks tekur á sig ýmsar myndir. Eins og fram hefur komið eru Vinstri græn nú helstu baráttumenn fyrir markaðsvæðingu orkuauðlinda landsins en Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í því að hneppa heilbrigðiskerfið í fjötra ríkiseinokunar og berja niður einkarekstur.

Biðlistar eru líka sem aldrei fyrr og komu ráðherra heilbrigðismála á óvart. Svo vel er hún tengd málaflokknum.

Málefni löggæslu eru í molum. Ég hef ekki tölu á því hversu oft undanfarin ár málefni löggæslu og tollgæslu hafa verið ítrekað til umræðu í sérstökum umræðum á þinginu. Úrbótum hefur verið lofað í hvert sinn en efndir eru litlar. Og nú er mál að linni, herra forseti, nú er mál að linni vegna þess að nú er ástandið orðið þannig, eins og vitað var, að lögreglan ræður ekki við ástandið og við megum ekki við því að missa tök á því að öryggi borgaranna sé tryggt og glæpaklíkur mega ekki ná völdum hér á Íslandi.

Ríkisstjórnin hefur að sumu leyti tekið upp og tekið undir mál Miðflokksins, t.d. um kennitöluflakk, þó að ekki sé jafn langt gengið í þeim efnum og við hefðum kosið; um að framlengja séreignarsparnað, sem er góðu heilli gjört, en ríkisstjórnin hefur ekki tekið undir þau mál okkar sem snúa að aukinni atvinnuþátttöku aldraðra, ekki heldur um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur og þá ekki að öryrkjar fái fullar bætur heldur er öryrkjum nú haldið í gíslingu vegna þess að þeir sætta sig ekki við hugmyndir ríkisstjórnarinnar um starfsgetumat. Þeim er því haldið í ógnarklóm og fá ekki þær bætur sem þeir hefðu átt að fá þegar 1. janúar sl. Við þessu var varað á sínum tíma af okkar hálfu en ekki hlustað.

Ég veit ekki hvort ég á að minnast á samgönguáætlun. Það er svo dapurlegt mál. Hún er búin að fara hring eftir hring og það er búið að rífa hana úr höndum samgönguráðherra með áður óþekktum hætti af samstarfsmönnum hans sem treysta honum ekki. Samgönguáætlun er nú boðuð ný í haust, á tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Vonandi sést framan í hana þá. Við bíðum spennt.

Verkefnin æpa úti um allt land. Öryggi vegfarenda er stórskert eins og fram hefur komið en efndirnar láta á sér standa, því miður.

Að þessu sögðu lítur Miðflokkurinn glaður fram á áframhaldandi þing og (Forseti hringir.) mun hér eftir sem hingað til halda áfram að berjast fyrir góðum málum, eins og hann hefur ávallt gert, standa við þau mál sem hann lofar í kosningum, ólíkt öðrum. — Gleðilegt sumar, góðir áheyrendur. Hafið það gott, alltaf.