149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Með leyfi forseta flyt ég ykkur eitt af ljóðum Óskars Árna Óskarssonar, eins af okkar allra bestu skáldum, sem fjallar um það þegar páfinn í Róm kom til Reykjavíkur:

„Þegar páfinn í Róm kom til Reykjavíkur bauðst borgarbúum að kyssa fætur hans að gömlum kaþólskum sið. Nokkur biðröð myndaðist á Landakotstúninu þar sem páfi sat í viðhafnarstól í hvíta silkikirtlinum sínum og rauðu skónum. Þegar röðin kom að lítilli stúlku sem átti heima á Sólvallagötunni, en langafi hennar var á sínum tíma þekktur hákarlaformaður, gerði hún sér lítið fyrir og beit í stóru tána á páfanum.

Síðan hefur páfinn í Róm ekki komið til Reykjavíkur.“

Herra forseti. Hvers vegna þetta ljóð? Jú, vegna þess að ég sá að hæstv. fjármálaráðherra var ásamt öðrum fjármálaráðherrum Evrópuríkja að ræða við páfann í Róm um loftslagsmálin. Okkur hefur til þessa dags þótt mikilvægt að tekið sé mark á okkur í samskiptum við aðrar þjóðir. Við viljum vera virt viðlits, vera tekin alvarlega og álitin sjálfstæð og fullvalda þjóð. Við berum með okkur ríkt þjóðarstolt og virðumst sjaldan stoltari en þegar eftir okkur er tekið á erlendri grundu. Þá fögnum við og stöndum saman í gleði og hamingju, stoltari en nokkru sinni. En til þess að eiga heimtingu á að vera tekin alvarlega þurfum við að skoða hvernig við komum fram við aðra, hvaða augum við lítum þá sem við gerum samninga við og göngum til samstarfs við. Getum við vænst virðingar ef okkur er ómögulegt að sýna öðrum hið sama?

Mikið hefur verið rætt um fullveldið að undanförnu og að að því steðji ógn. En hvað er þetta fullveldi? Hugtakið kemur úr þjóðarétti og felst hið ytra fullveldi einmitt í rétti ríkja til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar. Það höfum við gert áratugum saman, allt frá því að Ísland varð fullvalda. Við höfum skuldbundið okkur að þjóðarétti sem fullvalda ríki af fúsum og frjálsum vilja til að lúta ýmsum reglum. Það gerðum við til að mynda árið 1953 þegar við gerðumst aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu. Við vorum ekki með því að afsala okkur fullveldi heldur þvert á móti sýna umheiminum að við værum fullvalda þjóð sem teldi hagsmunum sínum betur borgið meðal annarra þjóða í samvinnu um aukin mannréttindi.

Skemmst er að minnast máls Jóns Kristinssonar sem leiddi til aðskilnaðar framkvæmdarvalds og dómsvalds, máls Þorgeirs Þorgeirsonar sem styrkti tjáningarfrelsið, mála sem opnuðu augu stjórnvalda fyrir mikilvægi millidómstigs, sem og fjölda annarra mála sem veitt hafa borgurum þessa lands nauðsynlegan rétt.

Hið sama má segja um EES-samstarfið sem án nokkurs vafa hefur aukið hér hagsæld umtalsvert og því löngu tímabært að leyfa þjóðinni að meta nú af alvöru hvað felst í því að vera í fullri samvinnu við önnur ríki Evrópu.

En þegar við erum í alþjóðlegu samstarfi getum við einfaldlega ekki leyft okkur að virða gagnaðilann einskis þegar okkur hentar. Hvers virði er slík samvinna ef samstarfsaðilinn byrjar að atyrða mann um leið og hann snýr sér við? Hvaða skilaboð eru það til íslensks almennings að við mætum prúðbúin á fundi um allan heim, heimsækjum erlend fyrirmenni, bjóðum þeim til fundar við okkur hér á landi, en þegar kemur að skuldbindingum íslenska ríkisins innan lands sem erlendis upphefjist hér fúkyrðaflaumur og vandlætingar um hvað þetta sé allt ömurlegt, hvað þetta hafi verið vond hugmynd og ekki til neins gagns. Hvaða trúverðugleiki er í slíku samstarfi og hvaða sjálfsvirðingu höfum við? Til hvers að mæta til alþjóðasamstarfs ef við stöndum ekki með því? Er það dæmi um fullvalda ríki sem gengur til samstarfs af fúsum og frjálsum vilja?

Samninga skal halda, um það er ekki deilt. Vilji maður ekki halda samstarfi áfram er leiðin ekki sú að brjóta sáttmála og virða samninga að vettugi, heldur ber stjórnvöldum að slíta samvinnunni til að halda virðingu lands, hvort tveggja heima við sem og á alþjóðavettvangi, ellegar standa með þessari samvinnu og taka fullan þátt. Við þurfum ekki að óttast ef við tökum af heilindum þátt í samstarfinu.

Góðir landsmenn. Við í Samfylkingunni óttumst ekki. Við erum reiðubúin að taka fullan þátt í því samstarfi sem við höfum þegar hafið og mögulegu samstarfi í framtíðinni með öðrum fullvalda þjóðum. — Góðar stundir.