149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:52]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er af mörgu að taka þegar litið er yfir verkefni yfirstandandi þings. Mörg góð mál hafa náð í gegn. Sum eru enn þá í vinnslu og önnur bíða fullbúin afgreiðslu. Ríkisstjórn Íslands er á öðrum vetri og hefur náð góðum samhljómi, enda hefur hún sýnt það og sannað að með góðri samvinnu ólíkra flokka og einbeittum vilja er hægt að ná árangri sem kemur þjóðinni til góða til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að staldra sérstaklega við byggða- og atvinnumál. Fyrst er að nefna frumvarp til til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. Atvinnuveganefnd, sem hefur haft það mál í vinnslu, hefur lagt mikla vinnu í að fara yfir breytingar, enda mikið í húfi. Hér er um stórt byggðamál að ræða sem kemur til með að skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum. Til þess að það geti orðið í sátt við náttúruna þurfa lagaramminn og kröfur til eldisfyrirtækjanna að vera vel ígrundaðar og skýrar. Það skal vanda sem lengi skal standa. Heilbrigði dýra og umhverfis er undirstaða þess að hægt verði að byggja starfsemina upp til sjálfbærni sem byggir á vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri stoð. Til þessa atriðis er horft í nýjum lögum með nýjum ákvæðum. En þó að þetta sé meitlað í stein verður hið opinbera að fylgjast vel með þróun greinarinnar og tryggja aðhald og eftirlit til að farið verði af ýtrustu nærgætni við starfsemina. Íslendingar hafa alltaf sett sér háleit markmið þegar kemur að umhverfi og náttúru. Það er enginn afsláttur gefinn á því, enda erum við sprottin af sterkri náttúru og verðum hluti af henni að lokum.

Virðulegi forseti. Í gær afgreiddi atvinnuveganefnd úr nefndinni frumvarp um reglur um innflutning á ferskum matvælum. Þingflokkur Framsóknarflokksins gerði fyrirvara við frumvarpið í vetur og snerust þeir um að sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu og enn fremur að lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla.

Tilgangur matvælalöggjafar EES snýr að því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Því er mikilvægt að sömu kröfur séu gerðar til innlendrar matvælaframleiðslu og innfluttrar.

Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þær áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi ein mesta ógn sem heilsufar manna stendur frammi fyrir í dag. Undir það taka helstu sérfræðingar okkar á sviði sýkla- og veirufræða og hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Sú samvinna sem var viðhöfð í atvinnuveganefnd skilaði niðurstöðu sem rímar vel við landbúnaðarkaflann í stjórnarsáttmálanum sem hefst á þeim orðum, með leyfi forseta, að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Auk þess boðar ríkisstjórnin metnaðarfull áform í loftslagsmálum.

Kolefnisfótspor og önnur umhverfisáhrif íslensks grænmetis og annarra afurða garðyrkjunnar eru miklu minni en þess innflutta. Því er í ljósi fæðuöryggis, umhverfisþátta og orkunýtingar skynsamlegt að hvetja til meiri innlendrar framleiðslu.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk okkar að hlúa að því góða og verja það sem gott er í samvinnu við alþjóðasamfélagið. Leggjum okkar af mörkum í átt að umhverfisvænu og heilbrigðara lífi. — Gleðilegt sumar, kæru landsmenn.