149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

störf þingsins.

[09:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fyrir nokkru lagði sá sem hér stendur fram fyrirspurn varðandi lánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings þann 6. október 2008. Hluta af spurningum var vísað til skýrslugerðar Seðlabanka Íslands um þá lánveitingu, aðdraganda hennar og afdrif og innheimtur lánsins. Það er margt athyglisvert sem fram kemur í skýrslu Seðlabankans. Eitt af því sem vakti athygli mína er að það kemur fram í formála seðlabankastjórans að bankinn sé nú fyrst og fremst að hugsa um nútíð og framtíð og hafi ekki gefið sér tíma til að skoða það sem gerðist í fortíð fyrr en við tilurð þessarar skýrslu. Það finnst mér vera nokkuð ámælisvert þar sem það sem í húfi var og það sem var til umfjöllunar var giska alvarlegt. Það kemur þó fram í skýrslunni að málatilbúnaður í kringum þessa lánveitingu til Kaupþings á sínum tíma var mjög í skötulíki. Það vekur eiginlega mikla furðu að í stofnun eins og Seðlabankanum, jafnvel þótt mikið hafi gengið á þessum tíma, liggi ekki fyrir nokkur einustu gögn um að beðið hafi verið um lán, á hvaða forsendum lánið var veitt og jafnvel ekki heldur hvort veðið sem um var að tefla var fyrir hendi. Ég held að það sé (Forseti hringir.) full ástæða til þess að skoða þau mál frekar heldur en kemur fram í skýrslunni, vegna þess að það blasir við að þarna var stjórnsýsla bankans í algerum molum.