149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[10:46]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að koma á að taka til máls undir þessum lið. Ætli ég hafi ekki beðið í tíu daga eftir að komast að.

(Forseti (SJS): Hálfan mánuð.)

Hálfan mánuð, já, þannig að það sem brann mjög á mér fyrir 14 dögum síðan er kannski farið að kulna svolítið eins og hraunið í Vestmannaeyjum (Gripið fram í.) á sínum tíma.

(Forseti (SJS): Það má alveg stytta ræðurnar.)

Já. Ég ætla samt sem áður að rifja það upp sem mig langaði helst að segja. Ég vil óska ráðherranum og okkur til hamingju með þessa stefnu. Hún er að mörgu leyti mjög góð. Það hefur verið ánægjulegt að vinna að henni í velferðarnefnd. Það er auðvitað svo að þegar er verið að setja í fyrsta skipti heilbrigðisstefnu fyrir landið eru ekki allir þættir inni sem fólk hefði kosið. Það er ekki fullskapað sem við búum til í fyrsta skipti. Ég held að í stóru myndinni séum við að stíga gríðarlega gott skref fyrir framtíðina. Við munum læra af því og betrumbæta heilbrigðisstefnu framtíðarinnar.

Mig langar að minnast á að hér kemur fram að mörgu leyti ný sýn. Það hafa margir kvartað yfir því að það vanti ákveðna hluti inn í þessa heilbrigðisstefnu eins og þjónustu við aldraða og starfsemi dvalar- og hjúkrunarheimila sem og forvarnir og lýðheilsu. Eins og ég segi, þetta er auðvitað ekki algjörlega fullkomið plagg en það er mjög mikilsvert að hefja þessa vinnu.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði tryggt. Við þurfum að átta okkur á því að landsbyggðin hefur í ríkara mæli þurft að sækja þjónustu sína til höfuðborgarinnar og Landspítalinn er auðvitað ekki heilbrigðiskerfið. Við þurfum að tryggja aðgang landsbyggðarinnar að heilbrigðiskerfinu. Við höfum heyrt kvartanir yfir því að ungar konur geti ekki fætt börn í heimabyggð lengur. Í Vestmannaeyjum er þetta sérstaklega erfitt. Þar er lítil eða engin fæðingarþjónusta og þar fæddist, held ég, eitt barn á síðasta ári. Við megum ekki gleyma því að landsbyggðin þarf á góðri þjónustu að halda. Hluti af því að öll þessi sérfræðiþjónusta er færð á höfuðborgarsvæðið er auðvitað bættar samgöngur sem eru lykillinn að heilbrigðisstarfsemi í mörgum byggðum.

Ég vil líka vekja athygli á starfsemi samtaka á borð við Hlaðgerðarkot og Samhjálp, SÁÁ, Krýsuvíkursamtökin, (BHar: Reykjalundar.) Heilbrigðisstofnunina í Hveragerði og Reykjalund. Það er góð ábending líka. Þetta eru forvarnastofnanir og á þeim er tekið líka að einhverju leyti í þessari stefnu. En það er gríðarlega mikilvægt að efla forvarnir. Við sjáum að heilbrigðiskerfið er að blása út en forvarnirnar hafa því miður ekki notið þeirrar athygli og fjármuna sem þær þarfnast. Ég held að það sé eitt af stóru málunum sem við þurfum að halda áfram með, að efla forvarnir, efla sjálfstæðar stofnanir sem vinna alveg ótrúlegt starf í þessu landi.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég hef kannski gleymt einhverju sem ég ætlaði að segja þar sem ég hef verið næstur á mælendaskrá í hálfan mánuð en læt þetta duga. Eins og ég sagði í upphafi: Ég óska ráðherranum til hamingju með þessa stefnu og okkur öllum. Hún mun gagnast okkur vel í framtíðinni.