149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[10:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki annað hægt en að taka til máls um þetta mikilvæga mál og fagna því mjög að það sé komið út úr nefnd. Ég held að hér séum við að fjalla um mjög mikilvægt mál. Það er mikilvægt að fyrir liggi stefna um það hvernig við ætlum að nálgast þennan málaflokk sem snertir þræði hjá hverjum einasta einstaklingi sem hér býr. Ég verð að viðurkenna að ég tók til máls í fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu og fagna bæði því að hún sé fram komin og einnig því hvernig hún hefur verið unnin í samráði og samstarfi við marga þá sem koma að þessum málum. Haldnir hafa verið opnir fundir og hlustað hefur verið eftir sjónarmiðum sem flestra. Það þarf ekki endilega að þýða það, fremur en yfirleitt, að hún sé alveg eins og ég myndi vilja hafa hana eða einhverjir aðrir hv. þingmenn. Auðvitað er um samstarfsverkefni að ræða.

Mig langar að taka undir það sem meiri hluti hv. velferðarnefndar segir í sínu nefndaráliti þar sem hann leggur sérstaka áherslu á að í aðgerðaáætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnunnar verði lögð rík áhersla á lýðheilsu með áherslu á forvarnir og endurhæfingu fyrir alla aldurshópa svo draga megi úr tíðni og alvarleika lífsstílssjúkdóma og bæta lífsgæði.

Mér finnst þessi punktur mjög mikilvægur og ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að horfa sérstaklega til hans. Við sjáum svo skýrt í heilbrigðismálum okkar hvað fleiri og fleiri vandamál sem hafa komið upp í heilbrigðiskerfinu, eða verkefni sem heilbrigðiskerfið tekst á við, tengjast lífsstílssjúkdómum af ýmsum toga.

Talað er um mikilvægi endurhæfingarspítala og endurhæfingarþjónustu sem getur auðvitað verið alls konar og misjöfn eftir þörfum einstaklinganna. Ég þekki sérstaklega til endurhæfingarspítalans Reykjalundar og veit að þar er unnið alveg ótrúlega gott starf á hverjum degi, með fullri virðingu fyrir öðrum heilbrigðisstofnunum sem ég veit að gera slíkt hið sama, en ég held að í umfjöllun um heilbrigðismál gleymist stundum hjá okkur mikilvægi stofnunar eins og Reykjalundar, sem er stofnun á heimsmælikvarða þar sem veitt er þjónusta á sviði endurhæfingar eins og best gerist í heiminum. Þess vegna er mikilvægt að horfa til fjölbreytileika í rekstrarformi þegar kemur að heilbrigðisstofnunum.

Ég nefni hér sérstaklega Reykjalund sem er sjálfseignarstofnun í eigu SÍBS. Við eigum fleiri flottar og faglegar stofnanir sem reknar eru sem sjálfseignarstofnanir. Vil ég þá nefna SÁÁ og stofnanir sem voru nefndar áðan, Hlaðgerðarkot og Náttúrulækningafélagið í Hveragerði — (Gripið fram í: Ekki gleyma því.) hv. þingmaður. Þetta eru allt mjög mikilvægar stofnanir en þær hafa ólík hlutverk. Ég held að það sé mjög mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld hafi skýran ramma um það hvers konar þjónustu þau æskja frá þessum sjálfstæðu einingum, hvort sem það eru sjálfseignarstofnanir eins og þær sem ég hef nefnt eða einhvers konar einkarekstur hjá læknum og læknastofum úti í bæ. Ég hygg að það sé mjög mikilvægt að við finnum góðan flöt á því hvernig hið opinbera heilbrigðiskerfi vinnur með einstaklingsframtakinu í þessum efnum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við horfum til þess að einstaklingurinn, sjúklingurinn sjálfur, fái alltaf sem besta þjónustu. Það á ávallt að vera útgangspunkturinn okkar, ekki þarfir viðkomandi stofnana eða fyrirtækja sem veita þjónustu heldur sjúklingsins, að sjúklingurinn fái eins góða þjónustu og best verður á kosið.

Við gleymum því stundum í umræðu okkar um heilbrigðismál, af því að við horfum á það sem miður fer, að þrátt fyrir allt erum við með afburðaheilbrigðiskerfi, eitt af þeim allra bestu í heiminum en við höfum líka metnað til að gera enn betur og það eigum við svo sannarlega að gera. Til að ná markmiðum okkar þurfum við að horfa til þess að við ætlum að veita sjúklingum sem besta þjónustu en við þurfum líka að gera það með sem hagkvæmustum hætti. Þess vegna verður að horfa til þess hvar þjónustunni sé best fyrir komið. Ég er stolt af því að við eigum háskólasjúkrahús, Landspítalann við Hringbraut, en mér finnst líka mikilvægt að byggja upp heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið og hjá fleiri aðilum en bara Landspítalanum. Þá er ég að vísa í sjálfseignarstofnanir sem ég ræddi hér og mikilvægi læknastofa og einkaframtaksins í þeim efnum.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að segja að það skipti mig öllu máli hvernig heilbrigðisstofnanir séu reknar. Það er í mínum huga ekkert kappsmál að það sé einkarekstur. Það er í mínum huga fyrst og fremst kappsmál að við veitum sem allra besta þjónustu og að einstaklingurinn hafi ákveðið val þegar kemur að því að velja þann sem sinnir þjónustunni. Af því leiðir að ég held að við þurfum að huga að því að hér sé ákveðin blanda í framboði þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Þá endurtek ég það sem ég byrjaði á, mikilvægi lýðheilsumála sem ég held að sé stóri þátturinn okkar. Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á lýðheilsuna. Ég hlakka til að sjá hvernig brugðist verði við þeim punkti í nefndarálitinu varðandi framkvæmd þessarar stefnu, að við setjum lýðheilsu, forvarnir og endurhæfingu í fyrsta sæti, að það sé í rauninni mikilvæg leið til að auka hagkvæmni og draga úr kostnaði sem felst í heilbrigðisþjónustunni okkar.