149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað örstutt til að árétta að í þeim málum sem við ræðum hér felst engin breyting á póstþjónustu, sem sagt lágmarkskröfum um alþjónustu, bara þannig að það sé alveg á hreinu. Að öðru leyti get ég tekið undir vangaveltur hv. þingmanns sem talaði á undan. Þessi mál verða áfram til umfjöllunar í nefndinni á þeim fundum sem við eigum eftir að hittast á á yfirstandandi þingi og væntanlega á næstu þingum líka. Hversu langt sem við komumst í að afgreiða mál hér er þetta viðvarandi verkefni í samfélaginu.

Ég vil bara árétta það og að lokum þakka fyrir gott samstarf um vinnslu þessa máls í umhverfis- og samgöngunefnd sem, eins og fram kom í upphafi máls míns í fyrri ræðu, er búið að standa yfir meira og minna frá því í desember.